Vöðvaslenfár

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eitt einkenni vöðvaslenfárs er að augnalok sígur
Skýringarmynd sem sýnir hvernig mótefni binst asetýlkólínnemum.

Vöðvaslenfár (myasthenia gravis) er sjaldgæfur sjálfsofnæmissjúkdómur sem lýsir sér þannig að mótefni myndast gegn nikotín asetýlkólínnemum beinagrindarvöðva og þessi mótefni trufla boðflutning frá taug til vöðva. Margs konar sýkingar virðast geta verið undanfari vöðvaslenfárs. Algengt er að sjúklingar með vöðvaslenfár þjáist að öðrum sjálfofnæmissjúkdómum svo sem rauðum úlfum og skjaldkirtilsbólgu. Þá eru tíu til fimmtán prósent sjúklinga með vöðvaslenfár með æxli í hóstarkirtli en þau æxli eru oftast góðkynja. Flestir sem þjást af vöðvaslenfári hafa offjölgun frumna í hóstarkirtli og þar eru kímstöðvar (germinal centers).

Tíðni vöðvaslensfárs er um það bil 10/100.000 íbúa og er sjúkdómurinn helmingi algengari hjá konum en körlum. Sjúkdómurinn er oft vangreindur á byrjunarstigi. Sjúkdómurinn byrjar oft með augneinkennum þannig að augnalok sígur, stundum aðeins á öðru auga. Lömun ytri augnvöðva veldur oft tvísýni. Önnur einkenni geta verið erfiðleikar við að tyggja og kyngja og raddþreyta og magnleysi í andlitsvöðvum þannig að andlitið verður svipbrigðalaust og erfitt er að brosa. Sjúkdómurinn getur einnig byrjað með þreytu og magnleysi í útlimavöðva. Mikill árangur hefur náðst í meðferð vöðvaslenfárs og er fátítt núna að fólk deyi úr honum. Meðferð felst einkum í lyfjagjöf og eru þá gefin ónæmisbælandi lyf og lyf sem draga úr niðurbroti boðefnisins asetýlkólíns og með að skera burt hóstarkirtill og með blóðskiptum.[1]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]


  1. „Vísindavefurinn, Hvað er vöðvaslenfár?“.