Uppreisn - ungliðahreyfing Viðreisnar
Uppreisn Uppreisn - ungliðahreyfing Viðreisnar | |
---|---|
Forseti | Gabríel Ingimarsson |
Varaforseti | Draumey Ósk Ómarsdóttir |
Stofnár | 2016 |
Stjórnmálaleg hugmyndafræði |
Frjálslyndi, Evrópustefna, Grænt frjálslyndi, Alþjóðahyggja |
Vefsíða | https://www.facebook.com/uppreisn |
Uppreisn - ungliðahreyfing Viðreisnar var stofnuð í maí árið 2016. Uppreisn er samansafn ungs fólks sem vill frjálslyndara og opnara samfélag. Hreyfingin berst fyrir jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins og gerir það ýmist í verki eða með orðum. Meðlimir Uppreisnar sinna málefna- og trúnaðarstörfum fyrir ungliðahreyfinguna og Viðreisn. Hreyfingin tryggir að raddir ungs fólks heyrist hátt og skýrt innan Viðreisnar. Einnig stendur hreyfingin fyrir alls konar viðburðum allt árið sem eru opnir hverjum þeim sem kann að hafa áhuga.
Innan Uppreisnar starfar eitt undir félag, Uppreisn í Reykjavík semheldur utan um ungliðastarf Viðreisnar í Reykjavík.
Saga félagsins[1]
[breyta | breyta frumkóða]Uppreisn var stofnuð árið 2016. Ungt fólk hafði áberandi áhrif á tilurð og mótun Viðreisnar. Mörg þessara ungmenna áttu það sameiginlegt að hafa upplifað sig landlaus í íslenskum stjórnmálum og höfðu rætt um þann möguleika að stofna nýtt framboð frjálslyndra ungmenna. Á þeim tímapunkti fóru að berast fregnir af mögulegum nýjum flokki sem hefði frjálslyndi, almannahagsmuni og alþjóðasamstarf í öndvegi. Vorið 2014 mættust þessir hópar og stjórnmálaaflið Viðreisn byrjaði að mótast.
Haustið 2014 hittist áhugafólk hvaðanæva úr íslensku þjóðfélagi á samstöðufundi. Þar á meðal var ungt fólk sem lét vel í sér heyra varðandi sínar áherslur og hvað vantaði í íslenskum stjórnmálum. Niðurstaðan var að tilefni væri til að stofna flokk sem setti málefni neytenda á dagskrá. Að samstöðufundi loknum hafði Jóna Sólveig Elínardóttir frumkvæði að því að kalla saman þann hóp ungmenna sem mætti á fundinn, auk fleiri sem kynnu að hafa áhuga. Ungmennin mættu saman á Sjávarklasann og ræddu mögulega ungliðahreyfingu Viðreisnar, áherslur hennar og nafnagift. Það var Geir Finnsson sem varð seinna fyrsti formaður Uppreisnar í Reykjavík sem stakk upp á nafninu Uppreisn.
Þegar líða tók á haustið 2015 var í fullri alvöru farið að leggja drög að stofnun Viðreisnar og Uppreisnar og fór tíðni funda því að aukast. Ekki var aðeins hugað að málefnum heldur líka umgjörð og skipulagi flokksins og ungliðahreyfingarinnar. Farið var út á land, meðal annars til Akureyrar og fleiri kynningarfundir haldnir. Húsnæði var tekið á leigu í janúar og þá fór boltinn að rúlla mjög hratt. Fulltrúar Uppreisnar héldu áfram að láta til sín taka og áttu ríkan þátt í mótun grunnstefnu flokksins, settu svip sinn á orðfæri og tóku við formennsku í ýmsum málefnanefndum sem lögðu drög að stefnuskrá.
Vorið 2016 birtust nöfn ráðherra þáverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Panamaskjölum sem leiddi til stjórnarslita og þingkosninga strax um haustið. Það kom sér því vel að Viðreisn hafði undirbúið sig hratt og vel: Flokkurinn var tilbúinn fyrir kosningar og ungliðahreyfingin sömuleiðis. Ákveðið var að flýta formlegri stofnun flokksins og kom þá í ljós að ungliðahreyfingin var komin nokkrum skrefum lengra í undirbúningi en flokkurinn. Því var Ungliðahreyfing Viðreisnar stofnuð þann 20. maí 2016, fjórum dögum fyrir stofnun Viðreisnar.
Í kjölfar formlegrar stofnunar setti ungt fólk svip sinn á stofnun Viðreisnar. Ungliðar opnuðu stofnfundinn, stýrðu honum og átti formaður ungliðahreyfingarinnar sérstakt ávarp þar að auki. Nýskipuð stjórn flokksins skipaði þó nokkurn fjölda ungmenna og hlaut ungt fólk úr grasrót Viðreisnar sæti ofarlega á öllum framboðslistum flokksins fyrir alþingiskosningarnar 2016.
Ungliðahreyfingin hefur vaxið allar götur síðan og átt frumkvæði að alþjóðastarfi Viðreisnar, meðal annars með því að sækja fundi erlendis með frjálslyndum stjórnmálaöflum í Evrópusambandinu, sem leiddi síðar til aðildar Viðreisnar að ALDE, samtökum frjálslyndra flokka í Evrópu og þar með aðildar hreyfingarinnar að ungliðahreyfingunni LYMEC. Þá hefur ungliðahreyfingin staðið fyrir Uppreisnarverðlaununum, stjórnmálaskóla og fræðslufundum svo fáein dæmi verði nefnd.
Á aðalfundi hreyfingarinnar, þann 22. september 2017 var samþykkt að breyta nafni ungliðahreyfingar Viðreisnar í Uppreisn – Ungliðahreyfing Viðreisnar. Tveimur vikum síðar var nýtt kennimark, eftir þáverandi formann, Dagbjart Gunnar Lúðvíksson, afhjúpað ásamt nýju nafni.
Forsetar
[breyta | breyta frumkóða]Forseti | Kjörinn | Hætti |
---|---|---|
Bjarni Halldór Janusson | 2016 | 2016 |
Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson | 2016 | 2018 |
Kristófer Alex Guðmundsson | 2018 | 2019 |
Starri Reynisson | 2019 | 2021 |
Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir | 2021 | 2022 |
Erlingur Sigvaldason | 2022 | 2023 |
Natan Kolbeinsson | 2023 | 2023 |
Gabríel Ingimarsson | 2023 |
Skipulag
[breyta | breyta frumkóða]Landsfundur er æðsta vald félagsins sem kýs 7 manna framkvæmdastjórn auk 8 fulltrúa í félagastjórn. Málefnastarf félagsins fer fram á sérstöku Uppreisnarþingi.
Framkvæmdastjórn er skipuð forseta, varaforseta og 5 meðstjórnendum. Skiptir hún svo með sér verkum á fyrsta fundi. Framkvæmdastjórn sér um daglegan rekstur félagsins. Félagastjórn sér um málefnastarf milli uppreisnarþinga.
Embætti | Nafn |
---|---|
Forseti | Gabríel Ingimarsson |
Varaforseti | Draumey Ósk Ómarsdóttir |
Ritstjóri | Emma Ósk Ragnarsdóttir |
Gjaldkeri | Einar Geir Jónasson |
Málefnastjóri | Ingunn Rós Kristjánsdóttir |
Viðburðastjóri | Máni Þór Magnason |
Samskiptastjóri | Stefanía Reynisdóttir |
- ↑ „Saga Uppreisnar - Ungliðahreyfingar Viðreisnar“. Viðreisn. 20. maí 2021. Sótt 14. júní 2023.