Ulrike Meinhof

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ulrike Meinhof árið 1964.

Ulrike Marie Meinhof (7. október 1934 – 9. maí 1976) var þýskur hryðjuverkamaður og einn stofnmeðlima kommúniska hryðjuverkahópsins Rote Armee Fraktion (RAF eða „rauða herdeildin“). Hópurinn var einnig oft kallaður „Baader-Meinhof-hópurinn“ í höfuðið á Meinhof og meðstofnanda hópsins, Andreas Baader. Samtökin frömdu ýmis ódæðisverk í Vestur-Þýskalandi á sjöunda og áttunda áratugnum og voru um hríð stimpluð sem „þjóðfélagsóvinur númer eitt“ af stjórnvöldum og fjölmiðlum.[1]

Áður en hún snerist til hryðjuverka var Meinhof blaðamaður í vinstrisinnaða stúdentablaðinu Konkret og hafði þar vakið athygli fyrir ofstækisfullar og byltingarsinnaðar skoðanir sínar.[2] Meinhof tók árið 1969 þátt í að skipuleggja flótta Andreasar Baader úr fangelsi eftir að hann hafði verið handtekinn fyrir að kveikja í tveimur verslunarhúsum í mótmælaskyni gegn Víetnamstríðinu og stofnaði síðan með honum og kærustu hans, Gudrun Ensslin, samtökin RAF. Samtökin frömdu meðal annars bankarán upp á um eina milljón þýskra marka, komust í skotbardaga við lögreglumenn og sprengdu sprengjur við bandaríska sendiráðið í Frankfurt am Main.[2]

Baader og Meinhof voru handsömuð af vestur-þýskum stjórnvöldum árið 1972; Meinhof nokkuð síðar en Baader.[3] Réttarhöldum yfir Meinhof var enn ekki lokið árið 1976, en þá fannst hún látin í fangaklefa sínum. Opinber skýring var sú að Meinhof hefði framið sjálfsmorð en margir drógu þessa skýringu í efa og dauði hennar vakti því talsverðar deilur í Vestur-Þýskalandi.[4][5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Þjóðaróvinur númer eitt“. Morgunblaðið. 17. júní 1972. Sótt 31. janúar 2018.
  2. 2,0 2,1 „Morð og aftökur í nafni hugmyndafræði“. Morgunblaðið. 12. desember 1972. Sótt 31. janúar 2018.
  3. „Meinhof tekin föst“. Þjóðviljinn. 17. júní 1972. Sótt 31. janúar 2018.
  4. „Var Ulrike Meinhof myrt?“. Þjóðviljinn. 11. maí 1976. Sótt 31. janúar 2018.
  5. „Meinhof var myrt“. Dagblaðið. 24. júlí 1976. Sótt 31. janúar 2018.