Fara í innihald

Tullia d'Aragona

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tullia d'Aragona sem Salóme á málverki eftir Moretto da Brescia.

Tullia d'Aragona (1501/1505 – mars eða apríl 1556) var ítalskt skáld, rithöfundur og heimspekingur á 16. öld. Hún fæddist í Róm, en ferðaðist til hirðanna í Feneyjum, Ferrara, Siena og Flórens þar sem hún gat sér frægðar fyrir gáfur og fegurð. Móðir hennar var ógift hirðmey, og ýmsir telja að hún hafi verið óskilgetin dóttir kardinálans Luigi d'Aragona, sem sjálfur var óskilgetið barnabarn konungsins af Napólí. Kardinálinn kostaði menntun hennar í Róm, en síðar flutti hún til Siena þar sem móðir hennar giftist aðalsmanni.

Tullia sneri aftur til Rómar í fylgd bankamannsins Filippo Strozzi og ferðaðist með honum þar til hann framdi sjálfsmorð 1538. Um tíma bjuggu þau í Feneyjum þar sem hún varð persóna í samræðu Sperone Speroni, Dialogo d'amore. Tullia sneri aftur til Rómar þegar Penelope d'Aragona fæddist. Hugsanlega var hún dóttir Tulliu, en fjölskylda hennar sagði að þær væru systur. Árið 1537 var hún í Ferrara ásamt Strozzi. Borgin var þá þekkt sem miðstöð lista og menningar. Þar giftist hún Silvestro Guiccardi, að sögn svo hún yrði ekki að búa í sérhverfi fyrir vændiskonur og mætti klæða sig að hætti aðalskvenna. Til eru sögur um að margir þekktir bókmenntamenn við hirðina í Ferrara hafi orðið ástfangnir af henni.

Um 1545 bjó hún rétt utan við Flórens þar sem hún hélt hirð skálda og rithöfunda og samdi heimspekilegar samræður og sonnettur, meðal annars tileinkaðar heimspekingnum Benedetto Varchi. Þar lauk hún við sitt frægasta verk, Dialogo della infinità d'amore, sem er eins konar svar við riti Speronis. Um 1548 sneri hún aftur til Rómar þar sem hún hélt áfram að semja kvæði. Hún lést þar árið 1556.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.