Thunderbolt (tengi)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Merki Thunderbolt
Thunderbolt-tengi (táknað með þrumufleygi)

Thunderbolt (áður fyrr nefnt Light Peak) er tengi til að tengja jaðartæki við tölvu. Tengið getur annaðhvort notað koparsnúru eða ljósleiðara. Örgjörvafyrirtækið Intel þróaði Thunderbolt-tengið í samstarfi við Apple. Fyrsta tölvan með innbyggðu Thunderbolt-tengi var MacBook Pro frá Apple sem sett var á markað 24. febrúar 2011. Tengið lítur alveg eins út og Mini DisplayPort sem var innbyggt í Apple-tölvum áður en Thunderbolt var kynnt til sögunnar. Apple skrásetti vörumerkið en Intel á einkaleyfi á tenginu og þess vegna var vörumerkið afhent Intel. Nafnið „Thunderbolt“ þýðir þrumufleygur.

Thunderbolt er samsetning af PCI Express og DisplayPort í nýju serialtengi sem getur flutt gögn lengra og í gegnum ódýrari snúrur. Vegna þess að margar tölvur eru með PCI Express tengi innbyggðu er einfalt að bæta Thunderbolt-tengi við þær. Kubbarnir sem keyra Thunderbolt-tengi setja saman gögn frá þessum tveimur tengjum og skipta þau aftur í tvennt fyrir notkun í tækjum. Þetta þýðir að hægt er að nota Thunderbolt-tengið með DisplayPort-tækjum.

Ætlað var að Thunderbolt gæti flutt gögn í gegnum ljósleiðara og þess vegna var þessi tækni nefnd Light Peak. Hins vegar kom það í ljós að hægt var að nota koparsnúrur með sömu bandbreiddinni (10 Gbit/s) á ódýrari verði. Ætlað er að kynna Thunderbolt-tengi sem notar ljósleiðara í framtíðinni.

Hægt er að tengja allt að sjö tæki í gegnum eitt tengi með Thunderbolt og mega tvö þeirra vera háskerpuskjáir. Apple selur millistykki sem breyta Thunderbolt-tengi í DVI, VGA og HDMI, þannig er hægt að nota það með mörgum núverandi tækjum.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi tölvunarfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.