Fara í innihald

Viking Society for Northern Research

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá The Viking Society)
Frá alþingi á Þingvöllum. Hluti málverks eftir W. G. Collingwood.

Viking Society for Northern Research – eða Víkingafélagið í London – var stofnað í London 1892 og hét þá Orkney, Shetland and Northern Society eða The Viking Club. Félagið helgar sig rannsóknum og kynningu á bókmenntum og menningu Norðurlanda á miðöldum, og er einnig samfélag fræðimanna og áhugamanna um efnið. Einkum er sjónum beint að menningartengslum Norðurlanda við Bretlandseyjar. Félagið, sem er helsti vettvangur norrænufræðinga á Bretlandseyjum, hefur birt fræðirit, útgáfur og þýðingar á fornritum (einkum íslenskum), og gefið út tímaritið Saga-Book frá 1895.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1902 var nafni félagsins breytt í The Viking Club eða Society for Northern Research og árið 1912 í Viking Society for Northern Research. Félagið varð brátt betur þekkt fyrir fræðastarfsemi en veislugleði, sem í upphafi var annar tilgangur þess. Félagslega þættinum var þó haldið við, einkum í árlegum kvöldverði („annual dinner“), sem hefur haldist til þessa dags, með nokkrum hléum.

Tímaritið Saga-Book kom fyrst út 1895, og fyrsta bindi Old-Lore Miscellany 1907–1908. Árið 1902 var hafin útgáfa á þýðingum fornrita, og sáu þeir William G. Collingwood og Jón Stefánsson um fyrsta bindið: The Life and Death of Kormac the Skald, með fallegum myndskreytingum Collingwoods. Ritröð með textaútgáfum hófst 1935 með Gunnlaugs sögu ormstungu.

Víkingafélagið spratt upp úr hinni rómantísku sýn á víkingaöldina, sem varð áberandi á Viktoríutímabilinu. W. G. Collingwood, prófessor í myndlist, sem þýddi og myndskreytti íslensk fornrit, gaf félaginu olíumálverk sitt, Alþing hið forna á Þingvöllum, og var það hengt upp í fundarherberginu. Eftir að félagið var stofnað varð það samkomustaður helstu norrænufræðinga sem búsettir voru á Bretlandseyjum. Meðal virkustu félagsmanna á fyrstu árunum voru: William Morris, Eiríkur Magnússon og Frederick York Powell, og meðal þeirra sem héldu svo áfram útgáfustarfsemi, fyrirlestrum og ráðstefnum voru Gabriel Turville-Petre, J.R.R. Tolkien, og Ursula Dronke, svo að einhverjir séu nefndir. Peter Foote var einn af forystumönnum félagsins eftir 1952, m.a. forseti þess 1974–1976 og 1990–1992.

Árið 1917 var Víkingafélagið beðið um aðstoð við að koma á fót norrænudeild við Háskólann í London, þar sem félagið hélt fundi sína. Síðan þá hefur yfirmaður norrænudeildarinnar (nú Department of Scandinavian Studies við University College London) verið annar heiðursritari félagsins (Honorary Secretary). Víkingafélagið átti mjög gott bókasafn á sínu fræðasviði, sem var árið 1931 sameinað bókasafni University College London, þegar félagið fékk framtíðar fundaraðstöðu þar. Bókasafnið eyðilagðist nær alveg í eldsvoða 1940, í loftárásum Þjóðverja, en hefur nú verið byggt upp aftur.

Árið 1962 gaf B. E. Coke ofursti sjóð til minningar um eiginkonu sína, og var þá stofnað til fyrirlestrahalds við University College: The Dorothea Coke Memorial Lectures, fyrst 1963, þegar G. N. Garmonsway flutti fyrirlestur um Knút ríka og stórveldi hans – „Canute and His Empire“; þeir eru prentaðir. Félagið hefur einnig aðstoðað við útgáfu á ritum Víkingaþinganna (Proceedings of the Viking Congress) frá því sjötta 1969.

Á fimmta Víkingaþinginu í Þórshöfn árið 1965, kom fram sú hugmynd að stofana skoska deild eða hliðstæðu við Víkingafélagið, og varð það að veruleika 1968, þegar Scottish Society for Northern Studies var stofnað. Það gefur út tímaritið Northern Studies og heldur ráðstefnu einu sinni á ári.

Útgáfustarfsemi

[breyta | breyta frumkóða]
Tímarit og ritraðir
  • Saga-Book 1–31, London 1895–2007. — Yfirleitt kemur eitt hefti á ári.
  • Old-Lore Series (of Orkney and Shetland) 1–75 (10 bindi), London 1907–1946. — Skiptist í þrjá undirflokka: Old-Lore Miscellany, Orkney and Shetland Records og Caithness and Sutherland Records.
  • Yearbook of the Viking Society 1–24 (8 hefti), London 1909–1932. — Í árbókunum birtust skýrslur, félagatal o.fl., en einnig ritdómar og annað efni, sem eftir 1932 var birt í Saga-Book.
  • Dorothea Coke Memorial Lectures. — Hafa birst óreglulega frá 1964.
Nokkur önnur rit
  • The Life and Death of Kormac the Skald, London 1902. — Kormáks saga í enskri þýðingu.
  • Olive Bray (þýð.): The Elder or Poetic Edda, commonly known as Sæmund’s Edda. 1, The mythological poems, London 1908. — Með myndskreytingum Collingwoods.
  • Gunnlaugs saga ormstungu, London 1935, 2. prentun 1974. — Text Series I. Textaútgáfa fyrir námsmenn.
  • Hallvard Magerøy (útg.): Bandamanna saga, London 1981.
  • Ólafur Halldórsson (útg.): Danish Kings and the Jomsvikings in the Greatest Saga of Óláfr Tryggvason. London 2000.
  • Ólafur Halldórsson (útg.): Text by Snorri Sturluson in Óláfs Saga Tryggvasonar en mesta. London 2001.

Sjá nánar á vefsíðu félagsins, þar sem er listi yfir þau rit sem fáanleg voru 2007. Mörg af ritum félagsins eru ætluð námsmönnum eða enskumælandi áhugamönnum um norræn fræði.