Tímaritið Jazz

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Forsíða fimmta tölublaðs tímaritsins Jazz, árið 1947. Rex Stewart prýðir forsíðuna en hann var væntanlegur til Íslands með hljómsveit sinni í október 1947.

Tímaritið Jazz var tónlistartímarit, gefið út af hljóðfæraversluninni Drangey árið 1947. Tage Ammendrup var eigandi hljóðfæraverslunarinnar og ritstjóri tímaritsins. Sama ár stofnaði Tage fyrirtækið Íslenzka tóna sem varð umsvifamikið á sviði útgáfu dægurtónlistar á árunum 1952-1964.

Alls voru gefin út 7 tölublöð, það fyrsta kom út í mars 1947 og það síðasta í nóvember sama ár. Tímaritið Jazz var fyrsta tímarit á Íslandi sem sérhæfði sig í djass-tónlist.[1] Tage skrifaði sjálfur megnið af efni blaðsins og Svavar Gests lagði fram efni í nær öll tölublöðin.

Jazzklúbbur stofnaður í tengslum við tímaritið Jazz[breyta | breyta frumkóða]

Í tengslum við útgáfu tímaritsins Jazz, stofnaði Drangey „Jazzklúbbinn”, sem hafði það að markmiði að kynna djasstónlist og flytja inn erlendar djasshljómsveitir í því skyni.[2] Búið var að semja við hljómsveit Joe Daniels um tónleika hér á landi í apríl árið 1947, en af því varð ekki vegna veikinda.[3] Þá var samið við hljómsveit Rex Stewart um að koma til landsins á vegum klúbbsins í október 1947. Búið var að selja inn á nokkra hljómleika í Gamla bíói, þegar samþykkt var á Alþingi að banna komu hljómsveitarinnar. Þetta bann varð að pólitísku deilumáli og harðorðar greinar birtust í dagblöðum næstu mánuði.[4][5][6][7][8][9][10] Bannið hindraði frekari áform djassklúbbsins um innflutning á erlendum hljómsveitum.

Innihald tímaritsins Jazz[breyta | breyta frumkóða]

 • Í fyrsta tölublaði, sem taldi 8 blaðsíður, er fjallað um hljómsveit Woody Herman, viðtal við Carl Billich, listi yfir bestu djasstónlistarmenn og hljómsveitir í Bandaríkjunum árið 1946 og fróðleiksmolar um erlenda tónlistarmenn. Blaðinu fylgdi atkvæðaseðill, þar sem lesendur voru hvattir til að velja bestu íslensku djasshljómsveitina og fremstu tónlistarmenn í nokkrum flokkum.
 • Í öðru tölublaði er grein um Coleman Hawkins, Svavar Gests gagnrýnir hljómleika Louis Armstrong, stutt umfjöllun er um Albert Ammons og Art Tatum, birtur er harmonikkuþáttur, plötulistar, textar, nótur við lagið „Too-ra-loo-ra”, lesendabréf og molar um ýmsa tónlistarmenn. Annað tölublað var 20 blaðsíður, en seinni tölublöð voru öll 16 síður.
 • Í þriðja blaði eru lesendabréf, molar um djass, grein eftir Harry Dawson, grein um Blanche Colman, nótur við lagið „Please don‘t say no”, textar og plötulistar. Einnig voru birt úrslit í skoðanakönnun blaðsins um bestu íslensku djasshljómsveitir og djassleikara. Helstu úrslit voru þessi:
Besta djasshljómsveit Íslands: Hljómsveit Björns R. Einarssonar
Besta litla hljómsveitin: Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar
Besti trompetisti: Haraldur Guðmundsson
Besti saxófónisti: Sveinn Ólafsson
Besti clarinettisti: Gunnar Egils
Besti trombónleikari: Björn R. Einarsson
Besti gítarleikari: Axel Kristjánsson
Besti píanóleikari: Carl Billich
Besti kontrabassisti: Bjarni Böðvars
Besti trommuleikari: Guðmundur R. Einarsson
Besti útsetjari: Carl Billich
Besti djasssöngvari: Björn R. Einarsson
Besta djasssöngkona: Bína Stefáns
 • Í fjórða tölublaði er grein eftir ritstjóra er nefnist „Hugleiðingar um tónlistarlífið”, en þar bregst hann við neikvæðum blaðaskrifum um djasstónlist. Birtar eru greinar um Duke Ellington og Count Basie, svo og grein Svavar Gests um trommuleikara. Birtir eru textar, nótur við lagið „It don't mean a thing” og stutt umfjöllun um Björn R. Einarsson, Guðmund R. Einarsson, Axel Kristjánsson og Svein Ólafsson, en þeir voru efstir í sínum flokki í skoðanakönnun tímaritsins. Rætt er um væntanlega komu hljómsveitar Rex Stewart til landsins.
 • Í fimmta tölublaði eru greinar um Jimmie Lunceford og Rex Stewart, nótur við lagið „Man here plays fine piano”, lesendabréf, hugleiðingar um tónlistarlífið, fréttamolar, framhald af umfjöllun Svavars Gests um trommuleikara og stutt umfjöllun um Gunnar Egils, Baldur Kristjánsson, Bjarna Böðvars og Carl Billich. Rætt er um tónlistarmenn þá er skipuðu hljómsveit Rex Stewart, sem var væntanleg til landins þegar fimmta tölublað var skrifað.
 • Í sjötta tölublaði fjallar ritstjóri um þann sérstæða atburð að hljómsveit Rex Stewart var meinað að koma til landsins. Fjallað er um Benny Goodman, rætt um „Jamsession” í Breiðfirðingabúð sem sætti tíðindum, Harry Dawson skrifar um „það nýjasta frá Englandi”, Svavar Gests ræðir um „Be-bop” og skrifar stuttar fréttir. Lesendabréf eru birt, svo og viðtal ritstjóra við Kristján Kristjánsson og Svavar Gests en þeir voru nýkomnir frá námi í Bandaríkjunum.
 • Í sjöunda og síðasta hefti tímaritsins Jazz lítur ritstjóri yfir efni tímaritsins á árinu og ræðir um fyrstu íslensku djassplötuna sem ætlunin var að gefa út árið eftir á vegum tímaritisins (IM 1). Jafnframt er tíundað að tímaritið hafi haft umburðarlyndi fyrir allri tónlist á stefnuskrá sinni. Rætt er um Harry James, nokkrir valinkunnir íslenskir hljóðfæraleikarar eru spurðir spurningarinnar „Hvað er swing”, birtur er listi yfir uppáhaldsplötur tveggja píanóleikara, Earl Hines og Steingríms Sigurþórssonar og rætt um fráfall Bob Crosby. Svavar Gests skrifar fréttamola, grein um uppruna og þróun djassins og aðra grein um bræður í tónlist.

Útgáfan leggst af[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1948 hætti Tage Ammendrup útgáfu tímaritsins Jazz og hóf útgáfu alhliða tímarits um tónlist sem nefndist Musica og var gefið út allt til ársins 1950.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Sjá m.a. grein eftir Tómas R. Einarsson í Helgarpóstinum, 24. apríl 1981, bls. 18.
 2. Tímaritið Jazz, 1. tbl., 1 árg., bls. 1.
 3. Tímaritið Jazz, 3. Tbl., 1 árg., bls. 11.
 4. Vísir, 10. október 1947, bls. 1.
 5. Alþýðublaðið, 10. október, 1947, bls. 8.
 6. Alþýðublaðið, 12. október 1947, bls. 8.
 7. Þjóðviljinn, 12. október 1947, bls. 8.
 8. Morgunblaðið, 11. október 1947, bls. 5.
 9. Þjóðviljinn, 11. október 1947, bls. 8.
 10. Morgunblaðið, 16. október 1947, bls. 7.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Hér má lesa blöðin í heild sinni: * Tímaritið Jazz á Tímarit.is