Tiberius Sempronius Gracchus
Tiberius Sempronius Gracchus (latína: TIBERIVS·SEMPRONIVS·TIBERII·FILIVS·PVBLII·NEPOS·GRACCVS) (164 f.Kr. – 133 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður og eldri bróðir stjórnmálamannsins Gaiusar Gracchusar. Líkt og bróðir hans síðar meir reyndi Tiberius Gracchus að koma til leiðar ýmsum félagslegum umbótum í óþökk ríkra landeigenda, yfirstéttarinnar og öldungaráðsins. Tilraunir hans til umbóta leiddu að endingu til dauða hans en hann var drepinn ásamt fylgjendum sínum af vopnuðu liði íhaldsmanna.
Tiberius var sonur Tiberiusar Gracchusar eldri og Corneliu Africana, en hún var dóttir Scipios Africanusar. Tiberius tók þátt í orrustunni um Karþagó í Þriðja púnverska stríðinu undir stjórn mágs síns Scipios Aemilianusar. Einnig tók hann þátt í átökum í Hispaniu þar sem rómverjar voru að stækka yfirráðasvæði sitt. Árið 134 f.Kr. var Tiberius kjörinn alþýðuforingi (Tribunus plebis). Tíberíusi blöskraði aðstæður óbreittra hermanna sem þurftu oft að vera árum saman fjarri heimilum sínum í herferðum. Margir þeirra voru kotbændur og á meðan þeir voru fjarri urðu bú þeirra gjarnan gjaldþrota. Auðugir aðalsmenn gátu þá eignast búin og safnað landareignum saman til þess að búa til stór hefðarsetur (Latifundium). Fyrrum hermenn enduðu því oft sem atvinnulausir öreigar á götum Rómaborgar. Til að bregðast við þessu lagði Tiberius fram lög sem takmarka áttu hve mikið land hver og einn gat átt. Það land sem menn áttu umfram ákveðin mörk yrði tekið yfir af ríkinu og deilt út á meðal fátækra. Öldungaráðið var á móti þessum lögum, enda voru margir meðlimir þess stórauðugir landeigendur, og því fór Tiberius fram hjá öldungaráðinu og lét Alþýðusamkomuna (Concilium plebis) samþykkja lögin. Öldungaráðsmenn óttuðust mjög völd og vinsældir Tiberiusar og sökuðu hann um að vilja verða kóngur yfir Rómaveldi. Þetta leiddi til þess að árið 133 f.Kr. voru Tiberius og um 300 stuðningmenn hans drepnir með kylfum og grjóti, af öldungaráðsmönnum og fylgismönnum þeirra.