Fara í innihald

Sýanóakrýlat

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Efnafræðileg uppbygging methýl cyanóakrýlats


Sýanóakrýlat er almennt heiti yfir fljótþornandi lím, oft kallað tonnatak, skammstafað CA á ensku. Límblöndur úr CA eru einnig notaðar í læknisfræðitilgangi til að líma saman sár og eru þær efnablöndur samsettar þannig að þær erta húð minna og eru ekki eitraðar.

Þegar CA er blandað saman við matarsóda fæst hart, létt þéttiefni en þessi efnablöndun framkallar hita og gufur.

CA er einnig notað í lögreglurannsóknum til að kalla fram ósýnileg fingraför á hlutum úr efnum eins og gleri og plasti. Gufum úr heitu CA er þá beint á yfirborð hluta þar sem þær þéttast ofan í sprungum sem fingraför skildu eftir og hvít fingraför koma fram.

Þunnt lag af CA lími er notað til að bæsa tréhluti. Það þornar fljótt og yfirborðið verður glansandi. Því er þá gjarnan blandað saman við línolíu. Einnig er það blandað með sagi og notað til að gera við sprungur í tré t.d. í viðarhljóðfærum og húsgögnum.

Fjallgöngumenn og hljóðfæraleikarar hafa notað CA til að gera við og búa til hlíf á fingurbrodda.

CA lím hefur verið notað til að líma saman sár, það var notað í sár særðra hermanna í Víetnamstríðinu til að minnka blæðingu þar til þeir komust á sjúkrahús.

CA var fundið upp árið 1942 í efnafræðistofum Kodak í tilraunum þar sem reynt var að búa til gagnsætt sterkt plast sem hentaði til að verjast byssukúlum í hernaði.

Mikill hiti og gufur myndast þegar CA er blandað með efnum úr baðmull eða ull og getur hitinn orsakað bruna og jafnvel kviknað í baðmull ef nógu mikið af CA er til staðar.