Fara í innihald

Sveigakot

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sveigakot er fornleifagröftur um 6 kílómetra suður af Mývatni í landi Grænavatns, í Þingeyjarsveit. Þar hófust fornleifarannsóknir 1998 og ári síðar fornleifauppgröftur.

Nafnið Sveigakot kemur fyrir í örnefnalýsingu Grænavatns og vísar til rústa þar sem talið er að bær hefði verið áður. Staðurinn er á rýru landi rétt austan við Kraká, en graslendi er nokkuð í kring og myndar sveiga í landslaginu. Talið að staðurinn dragi nafn sitt af þessum sveigum og þar sem gróður á þessu svæði hefur minnkað mjög frá landnámi er nafnið Sveigakot ekki endilega nafnið á þeim bæ sem þarna stóð, enda er nafnið ekki þekkt úr neinum eldri heimildum. Grænavatns er hinsvegar getið í Landnámabók sem eins af fyrstu býlum á þessu svæði við landnám og þar bjó landnámsmaðurinn Þorkell hávi[1].

Rannsóknir og uppgröftur

[breyta | breyta frumkóða]

Athuganir hófust á svæðinu árið 1998, þá var safnað saman dýrabeinum sem sýnileg voru á yfirborðinu og komið höfðu í ljós vegna jarðvegseyðingar. Árið eftir var grafið á þeim stað sem beinin fundust og þar reyndist öskuhaugur undir. Sama ár var einnig grafið þar sem virtust vera rústir bæjarhúsa. Við þessar rannsóknir kom í ljós að minjarnar væru frá víkingaöld[2]. Verkefninu lauk árið 2006 þegar allar minjar á svæðinu höfðu verið kannaðar[3]. Alls voru um 700 m2 grafnir upp í Sveigakoti[4].

Það sem gerir Sveigakot að sérstökum fornleifauppgreftri er að þar er öskulag sem líklega hefur fallið um 950. Þetta gerir að verkum að hægt er að tímasetja fyrstu byggingarnar í Sveigakoti með meiri vissu en annarsstaðar til fyrstu áratuga landáms hér á landi. Elstu útihúsin voru fjós 11x4 metrar að stærð en mannabústaður frá þessum tíma var einungis niðurgrafið hús 5x4 metrar að stærð[5]. Fjósið er talið það elsta sem fundist hefur á Íslandi[6]. Þeir gripir og mannvistarleifar sem fundist hafa í Sveigakoti gefa til kynna venjulegt heimilishald þess tíma. En þó er óvenjulegt hversu lengi heimilisfólk virðist hafa búið í jarðhúsum, það er smáum niðurgröfnum húsum. Það er ekki fyrr en á síðari hluta tíundu aldar sem byggður var skáli eins og algengastur var á tíma fyrstu byggðar á Íslandi. Seinni íverustaðir eru meðal annnars skáli sem hefur verið í notkun eitthvað fram á 12. öld, en þá virðist búskapur leggjast af í Sveigakoti og fólkið flytjast á brott[7].

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Archaelogical investigations at Sveigakot 1998-2000, ritstj. Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands (Reykjavík 2001), bls. 4-8.
  2. Archaelogical investigations at Sveigakot 1998-2000, ritstj. Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands (Reykjavík 2001), bls. 7-9.
  3. Archaelogical investigations at Sveigakot 2006, ritstj. Guðrún Alda Gísladóttir & Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands (Reykjavík 2008), bls. 4.
  4. Archaelogical investigations at Sveigakot 2005, ritstj. Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands (Reykjavík 2006), bls. 4.
  5. Ársskýrsla 2006, ritsj. Birna Lárusdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík, bls 33-37.
  6. Birna Lárusdóttir, Mannvist. Sýnisbók íslenskra fornleifa, Bókaútgáfan Opna (Reykjavík 2011), bls. 104.
  7. Archaelogical investigations at Sveigakot 2004, ritstj. Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands (Reykjavík 2005), bls. 52.
  Þessi Íslandsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.