Fara í innihald

Svartahafs brislingur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Svartahafs brislingur
[[image:
Svartahafs brislingur
|frameless|]]
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki Animalia
Fylking: Seildýr Chordata
Flokkur: Geisluggar Actinopterygii
Ættbálkur: Síldfiskar Clupeiformes
Ætt: Clupeidae
Ættkvísl: Clupeonella
Tegund:
C. cultriventris

Tvínefni
Clupeonella cultriventris
Svetovidov, 1941

Svartahafs brislingur (fræðiheiti: Clupeonella cultriventris) er uppsjávartegund af síldarætt og ber enska nafnið Black and Caspian sea sprat. Tegundin lifir í Svartahafi, Kaspíahafi og Asóvshafi, en einnig í vötnum og aðliggjandi ám allt að 60 m inn til lands. Þessi tegund greinist í tvær undirtegundir,  Clupeonella cultriventris cultriventris í Svartahafi og Asóvshafi og Clupeonella cultriventris caspia í Kaspíahafinu. Í þessari grein verður ekki gerður greinamunur á undirtegundunum heldur talað almennt um tegundina Clupeonella cultriventris. [1]

Meðallengd brislingsins er 10 cm en hann getur orðið allt að 14,5 cm langur og 5 ár gamall. [2]

Efri hluti fisksins getur verið allt frá ljósgrænum lit yfir í blá-grænan en kviðurinn er silfurlitaður eða út í gult. Fiskurinn er örlítið yfirmynntur og eyruggarnir eru frekar langir og oddmjóir. [3]

Lengdin á eyruggunum og kviðuggunum aðgreinir Svartahafs brislinginn í undirtegundirnar tvær, en báðir þessir uggar eru lengri hjá C. cultriventris cultriventris en hjá C. cultriventris caspia. [2]

Lifnaðarhættir og búsvæði

[breyta | breyta frumkóða]
Heildarafli Svartahafs brislings eftir veiðisvæðum

Í grunninn er þetta tegund sem lifir í ísöltum sjó í norðvesturhluta Svartahafs, Kaspíahafi og Asóvshafi, en hann þolir líka fullan saltstyrk (34‰). Fiskarnir lifa einnig í aðliggjandi ám og fara allt að 60 m inn til lands og finnast auk þess í  vötnum í Búlgaríu, Rúmeníu og Tyrklandi. [4]

Svartahafs brislingurinn á auðvelt með að aðlaga sig að breyttum umhverfisaðstæðum, eins og t.d. breyttu saltmagni. Því er talið að ef hann bærist til annarra hafsvæða eða vatna, t.d. með kjölfestuvatni skipa, þá gæti hann aðlagað sig að nýju búsvæði og haft ófyrirséð áhrif á þá fiskistofna sem eru þar fyrir. [1]

Hrygning og vöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Hrygningin á sér stað á misjöfnum tíma eftir því hvar fiskurinn lifir. Hrygning í Kaspíahafinu byrjar í apríl, nema í suðurhlutanum þar sem hrygning byrjar í febrúar og stendur yfir fram í lok júní. Hrygningin nær hápunkti fyrri hlutann í maí og fer fram við strandlengjuna á litlu dýpi, í júní færist hrygningin utar og er þá á allt að 5-6 m dýpi. Hrygningin í Asóvshafi byrjar seint á vorin og stendur yfir fram á sumar, en þar er hápunkturinn einnig í maí.

Hrygningin fer bæði fram í ísöltum sjó og neðarlega í ám þar sem að örlítil selta er til staðar, en eggin þurfa að vera í söltu vatni. Hentugasta hitastigið við hrygningu og fyrir lirfurnar eftir að eggin hafa klakist er 14-19°C.

Hver hrygna getur hrygnt á bilinu 9.500 – 60.000 hrognum sem hvert og eitt er aðeins um 1 mm í þvermál. Eggin klekjast u.þ.b. 27-30 klst. eftir hrygningu og heildarlengd lirfunnar er þá á bilinu 1,3-1,8 mm. Neðan á lirfunum er stór eggjarauðu-poki sem inniheldur næringarefni sem eru lirfunni lífsnauðsynleg fyrst um sinn. Lirfurnar fara fljótlega eftir klakningu upp í efstu lög sjávar til að nærast. Öldugangur getur verið mikill efst í sjónum í hvassviðrum, og í vondu veðri eru lífslíkurnar litlar fyrir smáar lirfurnar. Þær lirfur sem komast af stækka hratt fyrstu mánuðina og fiskurinn verður kynþroska um 1 árs aldur, þá 45-70 mm langur. [3]

Svartahafs brislingurinn er mikið notaður til niðursuðu, fiskurinn er þá marineraður í tómatsósu eða olíu, en fæst einnig reyktur og í olíu. Þetta er selt undir heitinu „kilka“. Brislingurinn er einnig saltaður á sama hátt og við þekkjum með síldina, en þá er hann saltaður og pæklaður heill en á þessari heimasíðu er því lýst hvernig hægt er að flaka fiskinn á þægilegan máta. [5] Bæði er hægt að nota niðursoðna fiskinn og saltaða fiskinn í ýmsa rétti en hér er vefsíða með nokkrum uppskriftum og afurðir af fiskinum. [6]

Hér er tengill Geymt 17 febrúar 2020 í Wayback Machine sem hefur að geyma uppskriftir af Svartahafs brislingnum.

Heildarafli Svartahafs brislings eftir veiðiþjóðum

Svartahafs brislingur er ekki alinn í fiskeldi, hann er eingöngu veiddur á hans náttúrulegu heimkynnum. Eins og myndin hér til hliðar sýnir var Rússland aflamesta þjóðin við veiðar á Svartahafs brisling eftir að Sovétríkin sundruðust og þau veiddu stóran hluta heildaraflans fram að aldarmótum. Í dag skiptist aflinn á milli 4 þjóða, Íran, Túrkmenistan, Úkraínu og Rússlands.

Veiðar á stofninum minnkuðu mikið í Svartahafi og Miðjarðarhafi í lok níunda áratugarins. Talið er að fiskistofninn hafi minnkað vegna ofveiða og óhagstæðra umhverfisaðstæðna, auk þess sem að ný tegund barst á þessi mið. Mnemiopsis leidyi er tegund marglytta sem kom í miklu magni í Svartahafið og Asóvshaf á þessum árum. Marglyttan lifir á dýrasvifi eins og brislingurinn og er því keppinautur um fæðu á þessum slóðum. Stærð fiskistofnsins hefur því minnkað vegna aukinnar samkeppni um æti, en einnig er talið að mengun í Svartahafinu sé hluti af ástæðunni. [7]

Marglyttan er einnig komin í Kaspíahaf en þar hefur fiskurinn nýtt sér þá eiginleika sína að geta aðlagast breyttu saltmagni og fer upp í árnar til að nærast. Þar er fiskurinn í friði frá marglyttunum sem þola ekki svona lágan saltstyrk. [3]

Svartahafs brislingurinn hefur marga afræningja, t.d. seli og stærri fiska og er þess vegna mikilvægur fyrir vistkerfið í heild. Ef stofninn minnkar verður minna af æti fyrir afræningjana og þá gæti farið að halla undan fæti þeirra stofna sem ekki hafa nægt æti. [8]

  1. 1,0 1,1 Black and Caspian Sea Sprat (Clupeonella cultriventris) Ecological Risk Screening Summary (PDF). U.S. Fish & wildlife service. 2017.
  2. 2,0 2,1 „Clupeonella cultriventris summary page“. FishBase (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 7. janúar 2016. Sótt 16. febrúar 2020.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Clupeonella cultriventris (Black Sea kilka)“. www.cabi.org (enska). Sótt 16. febrúar 2020.
  4. „FAO Fisheries & Aquaculture - Aquatic species“. www.fao.org. Sótt 16. febrúar 2020.
  5. „Kilka“. www.clovegarden.com. Sótt 16. febrúar 2020.
  6. „Geymd eintak“. akvamarin.com.ua. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. ágúst 2020. Sótt 16. febrúar 2020.
  7. „FIRMS - Marine Resource fact sheets - Marine resources - Mediterranean and Black Sea“. firms.fao.org. Sótt 16. febrúar 2020.
  8. Kohanestani z., Ghorbani R., Yelghi S., Fazel A., Zoghi M., (2013). An investigation on morphology, age and growth of the Caspian Sea Kilka (Clupeonella cultriventris) in Babolsar, Southern Caspian Sea. International Journal of Aquatic Biology, 1(4), 143-149 [1]