Fara í innihald

Stríð Spánar og Bandaríkjanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stríð Spánar og Bandaríkjanna

Teikning af síðustu baráttu spænska varnarliðsins á Kúbu eftir Murat Halstead.
Dagsetning21. apríl 189813. ágúst 1898 (3 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar)
Staðsetning
Niðurstaða Bandarískur sigur. Undirritun Parísarsáttmálans:
Breyting á
yfirráðasvæði
Spánn viðurkennir sjálfstæði Kúbu. Bandaríkjamenn hernema Kúbu og gera hana að bandarísku verndarsvæði. Bandaríkin innlima Púertó Ríkó, Gvam og Filippseyjar frá Spáni í skiptum fyrir 20 milljóna dollara greiðslu. Endalok spænska heimsveldisins.
Stríðsaðilar
Bandaríkin Bandaríkin Spánn Spánn
Leiðtogar
Bandaríkin William McKinley
Bandaríkin Theodore Roosevelt
Spánn María Kristín Spánardrottning
Spánn Práxedes Mateo Sagasta
Fjöldi hermanna
73.532 atvinnuhermenn og sjálfboðaliðar 70.000 atvinnuhermenn og 12.000 varaliðar
Mannfall og tjón

  • 281 hermenn drepnir og 1.577 særðir
  • 16 sjóliðar drepnir og 68 særðir
  • 2.061 látnir af völdum sjúkdóma

  • 200 hermenn drepnir og 400 særðir
  • 500–600 sjóliðar drepnir og 300–400 særðir
  • 15.000 látnir af völdum sjúkdóma

Stríð Spánar og Bandaríkjanna var stríð háð árið 1898 á milli Spánar og Bandaríkjanna. Átökin á milli ríkjanna hófust eftir að bandaríska skipið USS Maine sprakk í höfn Havana í Kúbu. Bandaríkjamenn gripu í kjölfarið inn í kúbverska sjálfstæðisstríðið.

Sjálfstæðisbarátta Kúbu var kveikjan að stríðinu. Kúbverjar höfðu staðið í uppreisnum gegn spænskum nýlenduyfirvöldum í nokkur ár og Bandaríkin studdu við þá eftir að þeir héldu til stríðs gegn Spánverjum. Á seinni hluta tíunda áratugsins var bandarísk alþýða undir áhrifum af áróðri gegn Spánverjum sem birtur var í fjölmiðlum Joseph Pulitzer og William Randolph Hearst, sem ýttu linnulaust eftir stríði gegn Spáni.[1][2] Bandaríska viðskiptalífið var rétt að ná sér eftir efnahagskreppu og athafnamenn óttuðust að stríð við Spán myndi eyðileggja efnahaginn að nýju. Því mæltu viðskiptajöfrar á móti því að haldið yrði til stríðs.

Þann 15. febrúar árið 1898 sökk bandaríska herskipið USS Maine á dularfullan máta í sprengingu í höfninni við Havana og Spánverjum var kennt um það. Þetta jók enn á Spánverjahatur Bandaríkjamanna og Demókratar þrýstu á forseta Bandaríkjanna, Repúblikanann William McKinley, að lýsa yfir stríði þvert gegn sannfæringu sinni. McKinley skrifaði þann 20. apríl 1898 undir tilskipun þar sem brottfarar Spánverja frá Kúbu var krafist og forsetanum heimilið að beita hervaldi til að tryggja sjálfstæði Kúbu. Spánn rifti stjórnmálasambandi við Bandaríkin þann 21. apríl. Þann sama dag setti bandaríski flotinn hafnarbann á Kúbu.[3] Þann 25. apríl lýstu Spánverjar því yfir að þeir myndu lýsa yfir stríði ef Bandaríkjamenn réðust inn á landsvæði þeirra. Þann 25. apríl lýsti bandaríska þingið yfir stríðsástandi milli Bandaríkjanna og Spánar, en það hafði í reynd byrjað um leið og hafnarbannið tók gildi þann 21. apríl.[4] Bandaríkin sendu Spáni úrslitakosti þar sem þeir heimtuðu að þeir hyrfu frá Kúbu en þar sem Spánn svaraði ekki nógu fljótt var gert ráð fyrir að þeir hefðu hunsað þá.[5]

Stríðið tók tíu vikur og var háð bæði í Karíbahafinu og Kyrrahafinu. Líkt og stuðningsmenn stríðsins höfðu vitað[6] skipti bandaríski sjóherinn sköpum og gerði Bandaríkjamönnum kleift að stíga á land í Kúbu og sigra spænska hermenn sem þurftu þá þegar að verjast árásum frá kúbverskum uppreisnarmönnum og glíma við gulusótt.[7] Bandarísk, kúbversk og filippeysk herlið neyddu Spánverja fljótt til að gefast upp þrátt fyrir harða andstöðu margra spænskra fótgönguliða og hetjulega frammistöðu þeirra í orrustunni við San Juan-hæð.[8] Ríkisstjórnin í Madrid samdi um vopnahlé eftir að tveir úreltir flotar þeirra sukku við Santiago de Cuba og Manila og sá þriðji og nútímalegri var kallaður heim til að vernda strandir Spánar.[9]

Friðarsáttmáli var að lokum undirritaður í París þar sem Bandaríkjamenn fengu tímabundið að hertaka Kúbu og Spánverjar létu jafnframt af hendi til þeirra Gvam, Púertó Ríkó og Filippseyjar. Bandaríkjamenn greiddu Spánverjum um 20 milljónir Bandaríkjadollara fyrir Filippseyjar til að bæta upp fyrir ýmsa innviði sem Spánverjar áttu þar.[10]

Ósigur Spánverja og missir þeirra á síðustu leifum spænska heimsveldisins var gríðarlegt reiðarslag fyrir þjóðarímynd Spánar og leiddi til þess að spænskt samfélag var gaumgæfilega endurmetið. Bandaríkin eignuðust ýmsar eyjar um allan hnöttinn og því byrjuðu nýjar deilur um hve skynsamleg útþenslustefna væri fyrir ríkið.[11] Stríðið við Spánverja var eitt af aðeins fimm stríðum sem bandaríska þingið lýsti formlega yfir.[12]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Mark Barnes (2010). The Spanish–American War and Philippine Insurrection, 1898–1902. Routledge. bls. 67.
  2. W. Joseph Campbell, Yellow journalism: Puncturing the myths, defining the legacies (2001).
  3. Trask, David F. (1996), The war with Spain in 1898, U of Nebraska Press.
  4. Beede, Benjamin R., ed. (1994), The War of 1898 and U.S. Interventions, 1898–1934, Taylor & Francis, bls. 148.
  5. Beede (1994), bls. 120.
  6. Atwood, Paul (2010). War and Empire. New York: Pluto Press. bls. 98–102.
  7. Pérez, Louis A. (1998), The war of 1898: the United States and Cuba in history and historiography, bls. 89.
  8. „Military Book Reviews“. StrategyPage.com. Sótt 22. mars 2014.
  9. Dyal, Donald H; Carpenter, Brian B.; Thomas, Mark A. (1996), Historical Dictionary of the Spanish American War, Greenwood Press.
  10. Benjamin R. Beede (2013). The War of 1898 and U.S. Interventions, 1898T1934: An Encyclopedia. Taylor & Francis. bls. 289.
  11. George C. Herring, From Colony to Superpower: U.S. Foreign relations since 1777 (2008) ch. 8
  12. „U.S. Senate: Official Declarations of War by Congress“. senate.gov. 29. júní 2015.