Steinunn Finnsdóttir
Steinunn Finnsdóttir (f. 1640 eða 1641, d. eftir 1710) var íslenskt skáld. Hún er fyrsta nafngreinda íslenska konan sem rímnaflokkar eru til eftir; Hyndlu rímur og Snækóngs rímur. Einnig eru varðveitt eftir hana vikivakakvæði, lausavísur og kvæði um íslenska fornkappa.
Efniviðurinn bæði í Hyndlu rímum og Snækóngs rímum er fenginn úr þjóðsögum. Í báðum tilfellum eru varðveitt sagnakvæði undir ljúflingslagi um sama efni og talið er að Steinunn hafi þekkt þau og ort út af þeim. Báðir rímnaflokkarnir fjalla um konur sem eru hnepptar í álög; önnur verður að hundi en hin að karlmanni.
Í formála að útgáfu rímnanna 1950 taldi Bjarni Vilhjálmsson að þær væru "sviplítill og tilþrifalaus skáldskapur, stórlýtalítill eða smáhnyttilegur, þegar bezt lætur, en á köflum lítt smekklegur leirburður." Sumir seinni fræðimenn hafa metið Steinunni meira og telur Bergljót Kristjánsdóttir að verk hennar marki þáttaskil í íslenskum rímnakveðskap - sérstaklega séu mansöngvar hennar frumlegir og gæti þar samfélagsgagnrýni.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Bergljót Kristjánsdóttir (1996). „Gunnlöð ekki gaf mér neitt / af geimsludrykknum forðum ...“ í Guðamjöður og Arnarleir, Sverrir Tómasson ritstýrði, bls. 165-219. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
- Steinunn Finnsdóttir (Bjarni Vilhjálmsson bjó til prentunar) (1950). Rit Rímnafélagsins III: Hyndlu rímur og Snækóngs rímur. Reykjavík: Rímnafélagið.