Steinahlíð
Steinahlíð er hús í Reykjavík og samnefndur leikskóli. Húsið stendur á stórri lóð sem var upphaflega Kleppsmýrarblettur 16 og var einn af erfðafestublettunum í Kleppsmýri. Landinu var úthlutað til erfðafestu árið 1928 en árið 1931 var erfafesturétturinn framseldur til Elly Schepler Eiríksson konu Halldórs Eiríkssonar kaupmanns og heildsala. Ellý og Halldór byggðu íbúðarhúsið árið 1928 en það var teiknað af dönskum arkitekt Arne Finsen undir áhrifum norrænnar klassíkur þess tíma. Húsið er byggt úr bindingi og var upphaflega klætt með eternitplötum á veggjum og þaki. Sama ár og húsið var byggt var byggður bifreiðaskúr úr bindingi rétt norðvestan við húsið og síðar var byggt garðhús fyrir börn en það garðhús var árið 1946 flutt til Þingvalla og er notað þar sem sumarhús. Ellý ræktaði upp landið kringum húsið og hafði þar mikla trjárækt og matjurtarækt. Húsið var gefið til Barnavinafélagsins Sumargjafar árið 1949. Skilyrði fyrir gjöfinni voru m.a. þau að eingöngu yrði starfrækt barnaheimili að Steinahlíð, þar sem sérstök áhersla yrði á að kenna börnum trjárækt og matjurtarækt og að tryggt yrði að landið sem fylgdi eigninni yrði ekki skert, ekki yrðu lagðir vegir um það né lóðum úthlutað úr því. Árið 1967 var land Steinahlíðar að austanverðu skert vegna vegalagningar.