Staðamál fyrri
Staðamál fyrri eru fyrri kaflinn af tveimur í staðamálum, deilumálum kirkjunnar og íslenskra höfðingja um yfirráð yfir stöðum, það er að segja jörðum þar sem höfðingjar bjuggu og höfðu reist kirkju og gáfu svo kirkjunni jörðina að hluta eða öllu leyti en bjuggu þar áfram, höfðu forræði yfir kirkjunni og fengu sinn hluta af tíundinni.
Þegar Þorlákur helgi Þórhallsson varð biskup í Skálholti 1178 hóf hann þegar árið eftir að krefjast forræðis yfir kirkjustöðum. Honum varð í upphafi nokkuð ágengt og sumir höfðingjar létu undan honum en Jón Loftsson í Odda stóð fastur á móti og tókst Þorláki aðeins að ná fáeinum stöðum undir forræði kirkjunnar. Eftir að hann lést varð hlé á staðamálum þar til Árni Þorláksson („Staða-Árni“) upphóf þau aftur seint á 13. öld.
Grundvöll fyrir kröfum Þorláks biskups er meðal annars að finna í samþykktum Annars Lateranþingsins, sem var haldið árið 1139. Þar segir í 10. grein: "Vér bönnum með postullegu valdi, að leikmenn leggi undir sig kirkjutíundir, sem kirkjulegar heimildir sýna, að nota eigi í trúarlegum tilgangi. Hvort sem þeir hafa þegið þær frá biskupum, konungum eða hverjum öðrum, skulu þeir vita, að þeir fremja glæpsamleg helgispjöll og eiga á hættu eilífa útskúfun, nema þeir skili þeim aftur til kirkjunnar. Vér skipum einnig svo fyrir, að hafi leikmenn eignarhald á kirkjum, skuli þeir annað hvort skila þeim í hendur biskupa eða eiga yfir höfði sér bannfæringu..."[1] Kaþólska kirkjan telur þetta vera hið tíunda almenna kirkjuþing, en samþykktir þeirra eru álitnar ófrávíkjanlegar.
Eysteinn Erlendsson erkibiskup hafði komið fram í Noregi þeirri breytingu, að kirkjubændur gætu ekki talið sig eiga kirkjur á jörðum sínum eða ráða fyrir tekjum þeirra, en þeir fengu hins vegar umboð frá biskupi til að gera vanalegar ráðstafanir, eins og húsabætur, og tillögu máttu þeir gera til biskups um nýja presta.[2] Þetta er ekki talið hafa breytt eins miklu í Noregi og íslenskir höfðingjar álitu það mundu breyta fyrir sig. En Eysteinn var á árunum 1180-1183 í útlegð, svo að Þorlákur gat lítinn stuðning fengið frá honum.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Samþykktir Annars Lateranþingsins Geymt 7 júní 2007 í Wayback Machine. Skoðað 2. september 2010.
- ↑ Gunnes, Erik: Norges historie, bind 2 (red. Knut Mykland), bls. 378-379, Oslo 1976.