Staður í Grunnavík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Staður í Grunnavík var prestsetur og kirkjustaður frá gamalli tíð. Kirkjan er helguð Maríu mey. Sjómenn hafa í gegnum tíðina heitið á Maríuhorn en þar er sviptivindasamt og hafa áheitin runnið til Maríukirkju í Grunnavík. Pantaleon Ólafsson var prestur á Stað á 16. öld og er örnefni á stað Pontagil eða Pontapartur kennt við hann. Einar Vernharðsson (1817-1900) varð prestur á Stað 1852 en hann var áður prestur á Söndum í Dýrafirði.

Séra Pjetur Maack Þorsteinsson varð prestur á Stað árið 1884 en hann drukknaði á heimleið úr kaupstað 8. september 1892 skammt undan landi og er kennt um svipvindi.

Kjartan Kjartansson tók við sem prestur af Pétri Maack. Hann byggði íbúðarhús í Sætúni. Kjartan var talinn fyrirmynd að sögupersónunni Jóni Prímusi í Kristnihaldi Halldórs Laxness. Jónmundur Halldórsson tók svo við af Kjartani árið 1918 og var prestur á Stað til 1954. Jónmundur skrifaði dagbók um líf og starf í Grunnavík. Prestsetrið á Stað brann 1920 á sama tíma og séra Jónmundur jarðsöng menn sem fórust við leit að Sumarliða pósti Brandssyni er hvarf fram af hengibrún við Vébjarnarnúp rétt fyrir jól árið 1920.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.