Stóra-Borg undir Eyjafjöllum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Stóra-Borg eða Stóraborg er gamalt höfuðból og áður kirkjustaður í Eyjafjallasveit í Rangárvallasýslu.

Staðhættir[breyta | breyta frumkóða]

Í lýsingu á bænum Stóra-Borg í ritinu „Sunnlenskar byggðir IV“ bls. 61, stendur: „Niðri á strönd Austurfjalla, miðsvæðis, rís hár, einstakur moldarhóll og talar skýru máli um undanhald landsins frá hafi.“ Svona hefst stutt yfirlit um stórbýlið og kirkjustaðinn Stóru-Borg sem mun hafa verið á fyrrnefndum stað frá því um 1000 til 1840. Um 1840 var bærinn fluttur um 640 m til að forða honum undan ágengni sjávar. Stóru-Borgabændurnir Eyjólfur Brandsson og Jón Jónsson stóðu fyrir þessum fluttningi og byggðu þar vesturbæ og austurbæ. Frá árinu 1921 hefur verið einbýli í Stóru-Borg, en íbúðarhúsið stendur við gamla vesturbæinn. Þegar „Sunnlenskar byggðir IV“ var ritað og gefið út 1982, segir í lýsingunni á staðháttum að „Um 250 m breitt graslendi er framan við bæinn og framan þess er fjaran, 150 m á breidd. Árlega brýtur framan af graslendinu, Kaldaklifsá sker Borgarland að austan og brýtur þar bakka.“

Skálinn á Borg[breyta | breyta frumkóða]

Í bók sínni „Íslensk þjóðfræði“ segir Þórður Tómasson frá Stóru-Borg undir Eyjafjöllum í kafla sem ber heitið „Gramsað í gömlum rústum“. Þórður er velkunnur Stóru-Borg og umhverfi bæjarins, því eins og hann segir hafði hann heyrt sagt frá ástarævintýrinu sem átti sér stað á 16. öld á upphaflega bæjarstæði Stóru-Borgar, Borgarhóll. Sagan sem hér um ræðir fjallar um Önnu á Stóru-Borg og ungann vinnupilt, Hjalta Magnússson. Þessi saga finnst í þjóðsögusafni Jóns Árnasonar en seinna skrifar Jón Trausti skáldsöguna „Anna frá Stóruborg“ sem kom út árið 1914, byggð á ástarsögu Önnu og Hjalta frá 16. öld og voru báðar útgáfur af sögu Önnu og Hjalta endursagðar á bæjum í Rangárvallarsýslu í gegnum tíðina.

Þáttur Þórðar Tómassonar í Skógum[breyta | breyta frumkóða]

Þórður Tómasson í Skógum hefur fylgst með eyðingu Borgarhóls og svæðisins umhverfis hólinn meira og minna alla ævi en eins og hann segir í bókinni sinni „Íslensk þjóðfræði“ á bls. 86 þá jókst tenging hans við svæðið órjúfanlegum böndum þegar hann fluttist að Skógum árið 1959. Nálægð Borgarhóls við Skóga og áhugi Þórðar á því að varðveita þekkingu eldri tíma, hvort sem það er gegnum sögur, tónlist, muni sem finnast í jörðu eða muni gefna safninu, hefur gert hann að einum helsta sérfræðing okkar tíma um lífið undir Eyjafjöllum í hartnær tvær aldir. Hann hefur safnað munnmælissögum og fróðleik um lífshætti manna á 19. og 20. öld, einkum á Suðurlandi frá því að hann var unglingur og hefur hann miðlað þekkingu sinni áfram gengum fjölda greina og bóka, auk þess að vera frumkvöðull að stofnun og uppbyggingu Byggðasafnsins að Skógum.

Eins og áður segir jókst áhugi Þórðar á Borgarhól og umhverfi hans við það að flytja sjálfur að Skógum. Það má segja að hann hafi fylgst gaumgæfilega með öllum breytingum sem orðið hafa á þessu svæði í rúmlega fimmtíu ár. Þórður hefur farið reglulega í gönguferðir um svæðið og fylgst með landeyðingunni sem orðið hefur vegna brims og ágangs sjávar. Hann hefur oft á sínum gönguferðum rekist á minjar sem komið hafa í ljós eftir óveður eða brim. Þessum munum hefur hann safnað og til að byrja með komið fyrir á Byggðasafninu en einnig hefur margt farið til Þjóðminjasafnsins.

Meðal muna þeirra sem Þórður hefur fundið má nefna að í árslok 1969 fann hann „hluta af höfuðkamb úr tré, sennilega fyrsta trékamb sem komið hafði úr jörðu á Íslandi“ (Þórður Tómasson í Íslensk Þjóðfræði, 2008: 93). Daginn eftir fann hann annan kamb í Borgarhólnum, og síðar fleiri.Einnig fann hann taflmann, renndan úr hvalbeini, sem bendir til að líf almennings hafi ekki eingöngu snúist um að daglegt strit. Meðal annars hefur hann fundið eftirfarandi muni: þráðarlegg merktan „XI“, þráðarleggur af fráfærulambi, ein ljósfæri, ljósakol úr móbergi, fiskasleggju úr eygðu hraungrýti og og eirnál sem fannst 1972, í Borgarfjöru (Þ.T. umorðað, 2008: 93-94).

Borgarkirkja[breyta | breyta frumkóða]

Í kringum árið 1200 e.kr. var gerð skrá um kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi. Í ljós kom að það þurfti níu presta til þjónustu undir Eyjafjöllum og í þessari skrá kemur fram fyrsta heimild um kirkju í Stóru-Borg. (Þórður Tómasson, 2008:95). Þegar þessi kirkjuskrá er gerð er bæjarheitið Arnarbæli. Stóra-Borg heitir Austasta-Arnarbæli um 1200 e.k. en bæjarnafnið Borg kemur fram í heimildum á 14. öld. (Þ.T., 2008:95). Þórður segir frá því að síðasta visitasía kirkjunnar hafi verið 1. okt.1679 en að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um Eyjafjöll 22. Nóvember 1709 segir um Stóru-Borg: „Hér hefur kirkja verið.... Kirkjan er fallin og hefur hér ekki verið embættirsgjörð flutt í 10 ár að menn minnir.“ (Þ.T., 2008:98).

Kirkjugarðurinn „Árið 1969 byrjaði sjór að marki að flæða upp um kirkjugarðinn í Borg í stórbrimi og fletta ofan af honum moldum.“ (Þ.T., 2008:99). Þessi ágangur sjós hélt áfram næstu ár og varð til þess að fjöldinn allur af gröfum opnaðist og kirkjugarðsveggir á móti suðri og vestri urðu mjög greinilegir. „Síðasti dyrasteinn var á sínum stað, .... Brim færði hann löngu síðar langt upp eftir fjöru og þaðan færði Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur mér [sic. Þórði] hann á Skógasafn. Hann gengur nú fyrra hlutverki, ...við sáluhlið Skógakirkju. (Þ.T., 2008:99).

Írski krossinn[breyta | breyta frumkóða]

Í nóvember 1972 fann Þórður leifar af írskum kross sem Brynjólfur biskup hafði skipað staðar haldara í Borg að heimta til dóms og laga árið 1641. Það sem Þórður fann var smelt eirplat af þverarmi á róðukrossi, franskt Límoges verk frá 13. öld. „Ég fann hann um það bil í altarisstað Borgarkirkju.“ (Þ.T., 2008:99, mynd:2008:100).

„Haustið 1975 fletti stórbrim ofan af grunni fyrstu kirkjunnar sem byggð var í Borg. Í ljós komu nokkrar kringlóttar holur ... [sem] mörkuðu skynsamlegar útlínur lítillar timburkirkju. “ (Þ.T., 2008:100). Þórður kallaði til Þórs Magnússonar, þáverandi þjóðminjavörð og Harðar Ágústssonar, sérfræðings um gamla húsagerð Íslendinga, sem skrifaði síðan greinina „Minnisgrein um kirkjugrunnsleifar á Stóruborg“ í Árbók Fornleifafélagsins, 1987:41-33. (Þ.T., 2008:99). Fornleifarannsóknir hófust í Borg 1978, með áherslu á gamla kirkjugarðinn, eða leifar hans, undir stjórn Mjallar Snæsdóttur, fornleifafræðings.

Að lokum bætast við nokkrar minjar sem Þórður hefur fundið við Minni-Borg sem er skammt vestan við Borgarhól. Þær minjar sem Þórður og telur fram þaðan eru öxi og margvíslegar viðar minjar sem afhentar voru Þjóðminjasafninu. „Nokkrar minjar frá þessari rúst eru í Skógum, lás, leður, vefnaður, prjón, raftala, góður, markaður vaðsteinn, brot úr ljósakolu og falleg eirnál.“ (Þ.T., 2008:112).

Bærinn, kirkjan, kirkjugarðurinn[breyta | breyta frumkóða]

Eins og áður hefur komið fram þá hefur eyðing lands sökum ágangs sjós og stórbrims, haft afgerandi áhrif á bæjar- og kirkjustæði Stóru-Borgar. Bærinn var fluttur til um árið 1840 um rúmlega 600 metra vegna eyðileggingar, eins og kom fram hér á undan, en á seinni helmingi 20. aldar hefur sjórinn og brimið sótt harðar að þessum forna bæjarstað. Formlegur fornleifauppgröftur hófst að Stóru-Borg sumarið 1978, en það má segja með sanni að þetta voru jafn mikið björgunar aðgerðir sem og rannsóknar uppgröftur. Í grein sinni „Kirkjugarður að Stóru-Borg undir Eyjafjöllum“ (Mjöll Snæsdóttir, Árbók Hins íslenska fornleifafélags, (1987:5-40) segir Mjöll að grafið var á hverju sumri í minnst 6 vikur og mest 11 vikur. Þegar greinin var skrifuð 1987 stóð uppgröftur enn yfir en honum lauk formlega 1990.

Fram hefur komið að haustið 1969 hafi brimið flett ofan af kirkjugarði suðaustan í Stóru-Borgar hólnum og að þá sást móta fyrir fjölmörgum gröfum. Árið 1972 gerði Þórður Tómasson uppdrátt af garðinum eins og hann var þá, með rúmlega 70 grafir. Veturinn 1975 var farið að sjást móta fyrir kirkjugrunni með stoðholum í garðinum sem Hörður Ágústsson og Þór Magnússon skoðuðu í nóvember 1975 að hvatningu Þórðar Tómassonar. (Mjöll, 1987:7). Holurnar sem sáust seint á árinu 1975 voru ekki lengur sjáanlegar þegar uppgröftur hófst í júní 1978. Á þeim skamma tíma sem liðinn var, tæpum þremur árum, þá hafði meiri jarðvegur skolast burtu úr kirkjustæðinu . (Mjöll, 1987:8). Mjöll telur óvíst að kirkjan á Stóru-Borg hafi verið á sama stað frá upphafi frekar en bærinn, enda eru fleiri dæmi í nágrenninu um að bæjarstæði hafi verið færð, og þá jafnvel oftar en einu sinni, vegna sandfoks eða ágangs sjávar. (Mjöll, 1987:9).

Við rannsóknina á kirkjugarðinum að Stóru-Borg kom í ljós að útveggir kirkjugarðsins væru misjafnlega vel varðveittir en samt var hægt að átta sig á því hvernig garðurinn var í laginu. Hann var ferhyrndur og hliðar hans beinar, nema suðurveggurinn sem var lítillega sveigður , etv. þannig að hann fylgdi lögun hólsins. (Mjöll, 1987:10). Leifar fundust af tveimur suðurveggjum sem bentu til þess að garðurinn hafi verið stækkaður til suðurs. (Mjöll, 1987:10). „Áður en kirkjugarðurinn á Stóru-Borg var stækkaður, þá hefur hann verið 19 x 11 metrar , en 19 x 16 eftir stækkun (að innanmáli).“ (Mjöll, 1987:12). „Vestan við kirkjuna sást lengi stór flatur steinn sem trúlega hefur verið dyrahella. Þegar uppgröftur hófst 1978 var þessi steinn horfinn úr garðinum og hafði borist með sjónum meira en 50 metra norðaustur fyrir hólinn.“ (Mjöll, 1987:13). Steinninn er nú staðsettur fyrir framan skrúðshúsið við Skógarkirkju eins og sagt var frá hér á undan, í kaflanum um þátt Þórðar.

Grafir[breyta | breyta frumkóða]

Líklegt er að þeir sem jarðaðir voru í kirkjugarði Stóru-Borgarkirkju hafi verið heimamenn frá Borg og hjáleigum hennar, en aðeins eru munnlegar heimildir fyrir greftri í garðinum. (Mjöll, 1987:13). Erfitt er að telja fjölda grafa í Stóru-Borgarkirkjugarði, en margt kemur til eins og stöðugur ágangur brims og óverðurs. „Við samanburð á teikningu Þórðar Tómassonar frá 1972 og teikningum (okkar) fornleifafræðinga frá 1978 verður ekki annað séð en að þær grafir sem sáust 1972 hafa verið horfnar 1978.“ Þannig að ætla mætti að ef tala grafanna sem sáust árið 1972 og þeirra sem sáust árið 1978 væru lagðar saman, þá gætu þær samanlagtt hafa verið 130 til 140 grafir. Þrátt fyrir það er ekki fullvíst að allt sé talið og ekki ólíklegt að fjöldi grafa gæti nálgast 150. (Mjöll, 1987:14). Beinin sem fundust voru mjög illa farin og í mörgum gröfum sást aðeins far eftir beinagrind í jarðvegi, eða beinmylsna sem sýndi hvar beinagrindin hafði legið. Ekki var hægt að taka upp bein, heldur varð að láta nægja að teikna beinagrindurnar eða leifar þeirra í hlutföllunum 1:10 og ljósmynda þær. Að sjálfsögðu var heldur ekki hægt að greina kyn, aldur, heilsufar eða annað eins, og hvernig handleggir höfðu legið. (Mjöll, 1987:14). „Ekki voru minjar um minnismerki á gröfum, legsteinum eða krossum.“ (Mjöll, 1987:15). „Ekki eru neinar krækjur, hnappar eða sylgjur af fatnaði varðveittar í gröfunum og bendir það til þess að fólk hafi ekki verið jarðsett í hversdagsklæðum sínum.“ Líklegt er að hinir látnu hafi verið vafðir eða saumaðir inn í eitthvert efni. (Mjöll, 1987:19).

Munir sem hafa fundist við uppgrefti við Stóru-Borg undir Eyjafjöllum og vitnað er til í ritinu „Gersemar og þarfaþing:“

Skerborð, þjms. 383 „

... en hlutar af skerborðum af þessu tagi hafa m.a. fundist við fornleifarrannsóknir á Stóraborg undir Eyjafjöllum.“ (Hallgerður Gísladóttir, 1974: 20)

Orffleygur, þjms. 1574

„Orffleygar eru í röð hluta sem vænta má að finnist viðuppgröft gamalla bæjarstæða hér á landai. Í rústum Stóruborgar undir Eyjafjöllum hafa 10 komið í leitir, einn úr hvalbeini, vel slitinn. Þeir eru mismunandi að stærð, sumir greinilega ætlaðir í unglingsorf. Lengsti orffleygurinn frá Borg er 11,5 cm. ...“ (Þórður Tómasson, 1974: 40)

Ölkanna eða skírnarvatnskanna, þjms. 2978

„Margar steinleirstegundir voru framleiddar í Þýskalandi og fluttar víða um lönd, m.a. til Íslands. Hafa brot úr þess konar ílátum fundist við uppgrefti víða um land, m.a. í Skálholti, á Bessastöðum, í Viðey, Stóruborg, Reykholti og Kópavogi.“ (Guðrún Sveinbjarnadóttir, 1974: 60)

Regla og vasabók úr beini, þjms. 4895, 4896

„Ritspjaldið er fjórar plötur... . Þessar beinþynnur hafa verið notaðar til að rita á með griffli eða ritblýi.... Sama hlutverki gengdu vaxspjöld á miðöldum og hafa slík spjöld á síðustu árum fundist við uppgrefti í Viðey og á Stóruborg undir Eyjafjöllum.“ (Guðmundur Magnússon, 1974: 90)

Blöndukanna frá Stórholti, þjms. 5266

„Á Stóruborg þar sem fornleifafræðingar hafa grafið upp bæjarhól með húsleifum miðöldum og fram á miðja 19. öld hefur tré varðveist betur en víðast hvar þar sem fornleifarannsóknir hafa verið hér á landi. Dæmigerðir bognir askstafir koma þar ekki ljós fyrr en í mannvistarlögum frá 18. öld þó að töluvert finnist af annars konar tréstöfum frá eldri tíð. “ (Hallgerður Gísladóttir, 1974:96)

Kúabót Madonnan frá Kúabót, þjms. 5023

„Sumarið 1982.... Það sumar unnum við að fornleifarannsókninni á Stóruborg. Þar fundust svo margir gripir sem þurfti að skrá, að sjaldan vannst tími til dægrstyttingar eins og að horfa á sjónvarp. Allir þeir merku gripir sem fundust á Stóruborg voru betri skemmtun. “ (Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 1974: 236)

Stóraborg, 1980

Víð uppgröft á sjálfan bæjarhólnum var farið í gegnum fjöldabyggina sem voru hver undir annari.... Rústasvæðið í Stóruborg var um 70 metra langt frá austri til vesturs en 15-25 metra breitt.... Í bæjarhólnum í Stóraborg voru skilyrði til varðveislu góð,... því varveittust hlutir úr líffrænum efnum. Fjöldi muna sem fundust í uppgreftinum sjálfum er 4578. Að auki er tölvert af munum, sem bjargað var áður en uppgröftur hófst.

Munirnir tengjast flestir hversdagslífi á bænum, en sem dæmi mætti nefna áhöld notuð við ullarvinnu og klæðagerð, matarílát og eldunaráhöld, leikföng, brot úr heyvinnlsu verkfæri og fleiri smáhlutir. (Mjöll Snæsdóttir, 1994:246-47).

Gríma: Ljósmynd af nokkurskonar grímu sem fannst í mannvistarlagi frá 17. eða 18. öld. (Mynd, 1994:246)

Beinkambur, laufaprjónn og leikfang, spýtukerling

Við uppgröftinn í Stóruborg fundust margvíslegir smáhlutir. Beinkambur frá 13. öld, laufaprjón frá 17. öld og spýtukerling liklega frá 17. eða 18. öld. (Mynd, 1994:247)


Munir sem hafa fundist við uppgrefti við Stóru-Borg undir Eyjafjöllum og vitnað er til í ritinu „Hlutavelta tímans“

Stóraborg u. Eyjafjöllum


„FORN HÚS GRAFIN UPP:

Á undanförnum áratugum hafa verið gerðar nokkrar víðamiklar rannsóknir á fornum bæjarstæðum: á Stóraborg undir Eyjaföllum, Bessastöðum á Álftanesi, Hólum í Hjaltadal, Skálhoti í Biskupstungum og Hofstöðum í Mývatnssveit, þar sem byggð ver samfeld um margra alda skeið. Þar hafa meðal annnars...“ (2004: 133)


Í HERRANS HELGIDÓMI: KIRKJUBYGGINGAR FRÁ ÖNDVERÐU TIL TUTTUGUSTU ALDAR ELSTU KIRKJUR.

(Nokkrar frásagnir eru varðveittar elstu kirkjur landsins og einnig hafa verið grafnir upp mjög fórnir kirkjugrunnar í Neðra-Ási í Hjaltadal og á Þórarinsstöðum í Steyðisfirði. Þeir bera biti um litlar timburkirkjur með stafverkslagi af fornri gerð með niðurgröfnum hornstöfum.... Leifar frá Stóruborg undir Eyjafjöllum vitna um sömu byggingartækni þó margt sé þar óljóst um lag kirkjuhússins. (Guðrún Harðardóttir, 2004: 151)


TÓSKAPUR ULLARVINNA Í BÆNDASAMFÉLAGINU ULLARVINNA AÐ FORNU

(...eru helstu heimilidir um ullarvinnu á Íslandi að fornu. Íslendingasögur, lagasafnið Grágás og veðskrár að fornum stofni, svonefnd Búalög eru meðal veigamikilla heimilda). Nefna má fornleifauppgrefti í Þjórsárdal, á Stóruborg undir Eyjafjöllum, í Viðey á Kollafirði, Aðalstræti og Suðurgötu í Reykjavík. Fremur algengt er að finna í uppgreftri einstaka hluta úr tósskaparáhöldum, einkum snúða af spunasnældum og kljásteina sem notaðir voru til að strekkja uppistöðu í vefstöðum og ekki er óalgengt að finnist snifsi úr voðum eða fatnaði. Afar sjaldgæft er að finnist í uppgreftri heilleg áhöld eða plögg sem ætla má að seú frá miðöldum. (Áslaug Sverrisdóttir, 2004: 195)

PRJÓNAKUNNÁTTA BERST TIL LANDSINS

(Talið er líklegt að kunátta í prjóni hafi borist til Íslands um eða jafnvel fyrir miðja 16. Öld og með bandprjónum- sáraeinföldum verkfærum- má segja að hérlendis hafi orðið það sem nú væri nefnt tæknibylting. .. Í Þjóðminjasafni eru elstu varðveittu prjónar frá um 1700 og fundust þeir við fornleifauppgröft á Stóruborg. Þeir eru þrír, allir úr málmi, mjóir og húðulausir (Þjms. Stb. 1979-308, 370, 235). Ekki er ósennilegt að um sé að ræða þá gerð prjóna sem notuð var til að prjóna í hring. Sú aðferð er algeng við sokka-og vettlingaprjón. (Áslaug Sverrisdóttir, 2004: 198)


FISKUR FYRIR FÆRI VÖRUSKIPTI VIÐ ÚTLÖND OG VERSLUNARHÆTTIR

1600-1900 Halldór Bjarnason Mynd á hægri síðu (225) Plúmba. Frá 13.-öld og fram á 18. öld tíðkaðist að festa blýinnsigli á klæðisvöru til sönnunar því af hvaða gæðaflokki hún væri og hvaðan varan væri. Nokkur slík insligl hafa fundist á Íslandi. Þetta insigli fannst á Stóruborg undir Eyjafjöllum og er talið frá 16.-18. öld. Þjms. ÍB (Halldór Bjarnason, 2004: 224)


LISTRÆN TEXTÍLIÐJA FYRR Á ÖLDUM ÚTSAUMUR, LISTVEFNAÐUR, SKINNASAUMUR, KNIPL OG ÚTPRJÓN Elsa E. Guðjónsson

LISTVEFNAÐUR

... Til er talsvert af jaðfundnum textíleifum frá miðöldum og síðari tímum; nokkrar pjötlur hafa fundist í kumlum frá elstu tíð en mest þó þegar grafið hefur verið í forn bæjarstæði, svo sem á Bergþórshvoli 1927-1928, Stóruborg 1978-1990 og í Viðey 1988-1989. Nær eingungu eru þetta leifar af ullarefnum, vaðmáli og einskeftu, en enginn útvefnaður utan bútarnir af spjáldofnum búndum tveimur sem þegar eru nefndir...“ (Elsa E. Guðjónsson, 2004:279)

ÚTPRJÓN

.... Elstu ritheimildir um prjón á Íslandi-eða prjónasaum eins og það mun hafa verið nefnt í fyrstu- eru frá síðasta fjórðungi 16. aldar, nánar tiltekið frá 1582-1584, en fundist hafa í uppgröftum eldri menjar íslensks prjóns að Stóruborg 1981 sléttprjónaður belgvettlingur, sem kann að vera frá fyrri hluta 16. aldar, .... .“ (Elsa E. Guðjónsson, 2004:287)

EINLITT ÚTPRJÓN: DAMASK PRJÓN OG GATAPRJÓN

.... Damaskprjón sem svo er nefnt erlendis, þ.e. einlitt útprjón unnið eftir reitamunsturum með brugðnum lykkjum á sléttum grunni hefur einnig þekkst hér á landi áður fyrr, en dæmi un það eru aðeins tvö. Annað, stuttar samhliða skárendur, er við aðra brún á lítilli, að öðru leyti sléttprjónaðri mórauðri ullarpjötlu frá seinni hluta 17. aldar eða um 1700, sem grafin var upp á Stóruborg 1980 (Þjms. Stb. 1980-175).“ (Elsa E. Guðjónsson, 288).


ÚTSKURÐUR SKORIÐ Í TRÉ, HORN OG BEIN Lilja Árnadóttir „

MATARÁHÖLD:

Heilir mataskar hafa ekki varðveist eldri en frá 19. Öld. Í uppgreftri á Stóruborg undir Eyjafjöllum fundust þó nokkrir askstafir í jarðlögum sem eru eldri. Skortur á eldri öskum þarf ekki að merkja að þeir hafi ekki þekkst fyrr, því eins almennur og hversdaglegur hlutur og askur hefur varla þótt varðveislu verður í árdaga Forgripasafnins.„ (Lilja Árnadóttir, 2004:299)


BARNAGAMAN LEIKIR OG LEIKFÖNG UM ALDIR Gyða Gunnarsdóttir

FYRRUM ÁTTI ÉG FALLEG GULL

Leikföng hafa einnig fundust í uppgreftri á Stóruborg undir Eyjafjöllum, meðal annars lítil öxi, brúður og lítill bátur. Völur, bein og skeljar voru geymd í útskornum kistlum sem voru kallaðir völuskrín eða gullastokkar, en voru seinna kallaðir leikfangakassar eða dótakassar. (Gyða Gunnarsdóttir, 2004-353-54) Mynd á bls. 354, mynd: Útskornir trékarlar voru dýrmæt leikföng. Ef börn áttu marga útskorna karla var hægt að mynda her og fara í stríð eða láta þá vinna margvísleg störf í búleikjum. Sumir gátu jafnvel setið hest. Leikföng frá 17. eða 18. Öld. Spýtukerling og karl frá Stóruborg undir Eyjafjöllum. Þjms. ÍB.


ORGAN, TRÓMET OG HARPAN SÖGN HLJÓÐFÆRI OG TÓNLISTARIÐKUN FRAM Á 19. ÖLD Smári Ólason

Mynd á hægri síðu. Bls. 372. Munngígja frá 16. Eða 17. Öld sem fannst við uppgröft á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum. Þessi einföldu hljóðfæri eru þekkt í einhverri mynd víða um heim. Þjms. ÍB.

Munngígja

sem fannst við fornleifauppgröft á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum er talin vera frá 16. eða 17. öld og er elsta hljóðfæri sem varðveist hefur hér á landi (Stb. 1982-73). Slík hljóðfæri hafa veriði nefnd á ensku jaw-harp eða kjálpaharpa en seinna fá þau einnig nafnið jewish-harp eða gyðingaharpa og eru einna þekktust undir því nafni. (Smári Ólason, 2004:375).

HLJÓÐFÆRI Í ÞJÓÐMINJASANINU

Þau hljóðfæri sem nú eru varðveitt í Þjóðminjasafninu eru flest frá seinni hluta 19. aldar og byrjun hinnar 20. Eina forna hljóðfærið er mungígan frá Stóru-Borg. (Smári Ólason, 2004:379).


Heimildaskrá:

Árni Björnsson, ed. Gersemar og þarfaþing, Þjóðminjasafn Íslands, Hið Íslenska Bókmenntafélag, Prentsmiðjan Oddi, Reyjavík 1974. ISBN 9979-804-56-4.

Árni Björnsson, Hrefna Róbertsdóttir, ed. Hlutavelta Tímans, Menningararfur á Þjóðminjasafni, Þjóðminjasafn Íslands, Prentsmiðja Svanur, Iceland, 2004. ISBN 9979-9507-7-3.

Kristján Eldjárn, (1994). Hundrað ár í Þjóðminjasafni, Mál og menning, G. Ben prentstofa, Reykjavík, (Upphaflega gefið út 1962). ISBN 9979-3-0666-1).

Mjöll Snæsdóttir. (1987). Kirkjugarður að Stóruborg undir Eyjafjöllum. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 84, 5-40. Sótt á www.timarit.is

Oddgeir Guðjónsson, Jón Guðmundsson, Júlíus Jónsson (ritnefnd). (1982). Sunnlenskar byggðir IV: Rangárþing austan Eystri Rangár. Reykjavík: Búnaðarsamband Suðurlands. Stjórn félagsins Ingólfs (ritstjórn). (1985).

Landnám Ingólfs: Nýtt safn til sögu þess 2. Reykjavík: Félagið Ingólfur.

Þórður Tómasson. (2008). Íslensk Þjóðfræði. Reykjavík: Skrudda. ISBN 978-9979-655-40-4.