Stálfjallsnáma

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Brúnkol (surtarbrandur).

Stálfjallsnáma er gömul surtarbrandsnáma í Stálfjalli á Barðaströnd og var stundaður þar námugröftur á árunum 1916-1918 en aðstæður voru mjög erfiðar og kolin misjöfn og var vinnslunni því hætt.

Náman er í Stálvík austan undir Skorarhlíðum. Þar eru mikil surtarbrandslög og þegar eldsneytisskortur var mikill á árum fyrri heimsstyrjaldar var ákveðið að hefja vinnslu í Stálfjalli til að afla kola. Farið var af stað með nokkrum stórhug þótt aðstæður væru afar erfiðar. Staðurinn er mjög afskekktur og vart hægt að komast þangað landveg nema eftir einstigi um hamra og skriður og ekki nokkur leið að leggja þangað veg, en fjaran er stórgrýtt og brimasöm og ekki hægt að lenda þar bátum nema við bestu aðstæður. Þó voru reist þar tvö íveruhús fyrir námamenn og unnið á vöktum við námagröftinn um tíma og voru þarna um 40 manns þegar mest var. Byrjað var á tilraunagrefti sumarið 1915 og sumarið eftir voru grafin þrenn tilraunagöng, gufuvél keypt til að knýja bora og járnbrautarteinar lagðir í námagöngunum, sem alls urðu fimm og allt upp í 80 metra löng.

Margir munu hafa látið sig dreyma stóra drauma um námavinnslu í Stálfjalli þótt enginn viti í raun hve mikinn surtarbrand er þar að finna. Meðal annars litu Danir hýru auga til kolanna í Stálfjalli því mikill eldsneytisskortur var í Danmörku á styrjaldarárunum. Eiginlegur námagröftur komst þó varla af stað og lítið af kolunum sem unnið var komst á markað, enda reyndist vinnslan mun erfiðari og kostnaðarsamari en ráð hafði verið fyrir gert og gæði kolanna voru heldur ekki jafnmikil og búist var við. Varð námafélagið brátt gjaldþrota og vinnslan lagðist þá af og húsin voru seld til niðurrifs. Enn má þó sjá námagöngin þótt sum þeirra séu hálfhrunin eða lokuð.

Í grein um ferð í Barðastrandasýslu árið 1916 kemur fram að húsið á Saurbæ á Rauðasandi er hitað upp með kolum úr Stálfjalli og er því lýst svona: “Þar sá jeg kolin úr Stálfjallshlíðunum. Sögðu konur mjer að þau hefðu gert ofninn eldrauðann að utan, og lifði í þeim eldur alla nóttina og fram á dag. Sögðu þær að þau væru betri en besti mór þar, og er hann þó víða góður þar; 8 þumla þykt væri besta kolalagið, en mikið rusl fylgdi oft með kolum þessum.”

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Kolin og kolanámurnar íslensku. Morgunblaðið, 15. apríl 1917“.
  • „Ísland í dönskum blöðum: Kolagröfturinn í Stálfjalli. Morgunblaðið, 26. júlí 1917“.
  • Ferð um Barðastrandasýslu 1916,Lögrétta, 39. tölublað (23.08.1916), Blaðsíða 144