Snemmgrískar bókmenntir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Snemmgrískar bókmenntir eru bókmenntir snemmgrísks tíma, þ.e. frá 8. öld f.Kr. fram að klassískum tíma um 480 f.Kr. Elstu varðveittu bókmenntir Grikkja eru kviður Hómers, Ilíonskviða og Ódysseifskviða. Talið er að kviður Hómers hafi verið samdar undir lok 8. aldar f.Kr.[1] en þær byggðu á munnlegum kveðskap sem hafði tíðkast lengi.[2] Ekki er vitað hvenær þær voru fyrst ritaðar. Kviður Hómers eru söguljóð (eða epískur kveðskapur) en þær urðu bókmenntalegur bakgrunnur allra grískra bókmennta.

Annað meginskáld þessa tímabils var Hesíódos. Enda þótt kvæði hans, Goðakyn og Verk og dagar, hafi sama bragform og skáldamál og kviður Hómers er viðfangsefni þeirra þó annað; þau eru gjarnan talin eins konar uppfræðuslukvæði. Kvæði Hesíódosar eru talin hafa verið samin undir lok 8. aldar f.Kr. Í fornöld var gjarnan litið svo á að Hómer og Hesíódos hafi verið samtímamenn.

Á snemmgrískum tíma voru einnig samin lýrísk kvæði undir ýmsum bragarháttum. Þetta voru kvæði sem voru gjarnan sungin við undirleik lýru eða annarra hljóðfæra. Lýrískur kveðskapur gegndi margvíslegu félagslegu hlutverki: hann gat til dæmis verið afþreying á samdrykkjum eða vettvangur fjölmiðlunar á opinberum hátíðum, þar sem pólitískri hugmyndafræði var komið á framfæri. Meðal helstu höfunda snemmgrísks lýrísks kveðskapar voru Arkílokkos, Alkajos, Saffó, Alkman, Hippónax, Fókýlídes, Mímnermos, Íbykos, Semonídes frá Amorgos, Símonídes frá Keos, Stesikkoros, Týrtajos og Sólon.

Grísk leikritun varð einnig til á snemmgrískum tíma en hún átti eftir að blómstra á klassískum tíma.

Sjá einnig[breyta | breyta frumkóða]

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. Venjulega er Ilíonskviða talin hafa verið samin um 750-730 f.Kr. og Ódysseifskviða um 730-700 f.Kr.
  2. Um það er deilt hvort kviður Hómers hafi yfirleitt verið samdar af einu skáldi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Dover, Kenneth, o.fl., Ancient Greek Literature, 2. útg. (Oxford: Oxford University Press, 1980/1997).
  • Howatson, M.C. (ritstj.), The Oxford Companion to Classical Literature (Oxford: Oxford University Press, l989).
  • Lesky, Albin, A History of Greek Literature, 2. útg., Cornelis de Heer og James Willis (þýð.) (Indianapolis: Hackett, 1966/1996).
  • Saïd, Suzanne og Trédé, Monique, A Short History of Greek Literature (London: Routledge, 1999).
  • Taplin, Oliver (ritstj.), Literature in the Greek World (Oxford: Oxford University Press, 2000).
  • Whitmarsh, Tim, Ancient Greek Literature (Cambridge: Polity, 2004).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hver var Hómer og eru til einhverjar traustar heimildir um hann?“. Vísindavefurinn.
  • „Um hvað fjalla Hómerskviður?“. Vísindavefurinn.