Skjaldarmerki Færeyja
Fyrirmyndina að Skjaldarmerki Færeyja má fyrst sjá á frægum útskornum stólum frá Kirkjubæ sem gerðir voru á 15. öld. Sýnir skurðurinn hrút á skildi. Seinna var hrútsmyndin notuð á innsigli lögréttumanna á lögþingi Færeyja.
Það var hætt að nota skjaldarmerkið þegar lögþingið var lagt af 1816. Þrátt fyrir endurreisn lögþingsins 1852 var skjaldarmerkið ekki tekið í notkun.
Það var ekki fyrr en að heimastjórnarlögin tóku gildi 1948 sem skjaldarmerkið var að nýju tekið í notkun, en ekki af þjóðþinginu, Løgtingið heldur af Landsstjórn Færeyja.
Árið 2004 var ný útgáfa af skjaldarmerkinu tekin í notkun og hefur Kirkjubæjarstólana að fyrirmynd. Litirnir eru dregnir af færeyska fánanum að viðbættum gulum eða gylltum lit. Nýja skjaldarmerkið sýnir hrút í varnarstöðu. Skjaldarmerkið er notað af ráðherrum og sendiráðum en eldri útgáfan er enn í notkun hér og þar.