Fara í innihald

Skinnklæði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skinnstakkur eins og vermenn klæddust.
Teikning frá 1835 af íslenskum sjómanni Pétri Ólafssyni í skinnklæðum. Teikningin er úr Íslandsleiðangri Pauls Gaimard.
Skinnstakkur séð að aftan. Mynd frá TommyBee

Skinnklæði eru föt gerð út skinni dýra. Skinnklæði voru einkun ætluð sem hlífðarföt við sjósókn á opnum bátum. Þau voru þannig unnin að gærur af sauðfé voru rakaðar og urðu þá að ull og skinnum. Skinnin voru skafin og þurrkuð og þegar þau voru þurr voru þau oftast lituð. Þau voru lituð í sortulyngs- eða birkibarkarseyði eða eirlituð á þann hátt að eir helst í þunnum plötum var látinn liggja um tíma í hlýjum legi og leysast þar upp. Skinnin voru lituð í leginum og þurrkuð. Um 1880 var farið að nota blástein til litunar. Þegar skinn voru þurr voru þau hengd upp í eldhúsi og geymd við hæfilegan reyk þangað til þau voru notuð.


Aðalskinnklæðin voru stakkur og brók. Til voru þrenns konar stakkar og þrenns konar brækur. Hempuskinnstakkur var gerður úr fjórum ærskinnum og fór eitt skinn í sitt hvora ermi og eitt í framstykki og eitt í afturstykki eða boðanga. Laskaskinnstakkur var eins nema hvað varðar ermar voru minni. Vatnsfaraskinnstakkur var þannig að á öxlum á ermum voru saumaðar blöðkur og oft var hafður á þeim kragi. Í brók var fór að minnsta kosti eitt sauðskinn í hvora skálm og í bakhlutann var haft eitt kálfsskinn. Skinnin voru höfð þannig að hálsinn sneri niður. Í botn hverrar skálmar í venjulegri brók voru saumaðir leðurskór. Brók með leppasólum var svo þannig að í skálmabotna voru saumaðir illeppar en það voru löguð skinnstykki, sólarnir. Brók með kjöl eða kjölbrók var hvorki með skó eða sóla heldur voru skálmarbotnarnir saumaðir saman undir iljum. Þá þurfti að vera í sjósokkum utan yfir. Sjóskór voru úr sútuðu nautsleðri. þeir urðu mjög hálir.