Skáleyjar

Hnit: 65°25′00″N 22°43′00″V / 65.41667°N 22.71667°V / 65.41667; -22.71667
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

65°25′00″N 22°43′00″V / 65.41667°N 22.71667°V / 65.41667; -22.71667 Skáleyjar eru innsti hluti svonefndra Inneyja sem aftur teljast til Vestureyja Breiðafjarðar og Flateyjarhrepps. Nú í dag eru eyjarnar hluti af Reykhólahreppi. Auk Skáleyja teljast til Inneyja, Hvallátur, Sviðnum og Svefneyjar. Af þessum eyjum eru Skáleyjar innstar og næst landi. Skáleyjum tilheyra um 160 eyjur og þegar sem flest var fólkið í eyjunni voru þar fimm ábúendur. Upphaflega voru ábúðarpartarnir fjórir og báru nöfnin Norðurbær, Ytribær, Efribær og Innribær en voru svo sameinaðir í tvo jafn stóra jarðarparta. Auk þessarar skiptingar á jörðinni sjálfri voru heimili gamals fólk sem lifði af eignum sínum og svokallaðar þurrabúðir þar sem heimilismenn stunduðu sjósókn og höfðu lifibrauð af því meðan fiskimiðin gáfu af sér.[1]

Skáleyjar hafa að öllum líkindum verið byggðar frá fyrstu tíð en ekki er minnst á þær í neinum fornritum nema Sturlungu. Þar kemur þó ekki fram að Skáleyjar séu í byggð heldur eru þær bara nefndar sem eign stórhöfðingja og í raun ekki vitað hvenær þær byggðust fyrst þó menn telji að það hafi verið fljótlega eftir landnám.[2]

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 kemur fram að verðgildi jarðarinnar hafi þá verið 40 hundruð, en verðgildi eða dýrleiki eins og það var nefnt var mælt í hundruðum. Meðalbújörð á Íslandi var 20 hundruð en óðalsjörð 60 hundruð eða meira. Jörðin Skáleyjar var leigujörð, eigendur hennar voru börn Þorsteins Þórðarsonar frá Skarði. Ábúendur í Skáleyjum á þessum tíma voru fjórir. Leigukúgildi voru í heild átta og var leigan borguð í æðardún. Heildarleigan átti að vera 30 fjórðungar af æðardún sem samsvarar 150 kg en hver fjórðungur er um 5 kg.[3].


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Eylenda, 1996:229.
  2. Eysteinn Gíslason, 1989: 182.
  3. Árni Magnússon og Páll Vídalín, 1938: 243-244

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Árni Magnússon og Páll Vídalín, Jarðabók 6. og 13. bindi. (Kaupmannahöfn: Hið Íslenska fræðafjelag í Kaupmannahöfn, 1938).
  • Eysteinn Gíslason. „Eyjar í Barðarstrandarsýslu.“ Hjá Hjalta Kristgeirssyni (ritstj.), Ferðafélag Íslands Árbók 1989: Breiðafjarðareyjar. árg 41. (Reykjavík: Prentsmiðjan ODDI hf, 1989): bls. 135-217.
  • Þorsteinn Jónsson (ritstj.). Eylenda I: Ábúendur í Flateyjarhreppi og þjóðlífsþættir. (Reykjavík: Byggðir og bú ehf, 1996).