Seinheppinn syndaselur
Seinheppinn syndaselur (franska: Vito la Déveine) er 43. Svals og Vals-bókin og sú ellefta eftir þá Tome og Janry. Bókin kom út á frummálinu árið 1991 en í íslenskri þýðingu ári síðar.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Sagan hefst um borð í einkaflugvél. Don Vito Cortizone, úr bókinni um Sval í New York lendir í deilum við flugmann sinn Von Schnabbel og varpar honum loks frá borði. Flugvélin hrapar í lóni á mannlausu kóralrifi. Don Cortizone verður strandaglópur, hefst við í yfirgefnu hóteli safnar skeggi og hríðhorast.
Svalur og Valur eru á siglingu í Suðurhöfum. Valur er í djúpri ástarsorg og vart mönnum sinnandi. Skúta þeirra nær landi við kóralrifið eftir óveður. Félagarnir bera ekki kennsl á Don Cortizone sem fær þá til að hjálpa sér við að kafa eftir farmi flugvélarinnar, sem reynist hafa að geyma gripi sem boða ógæfu. Gripunum hafði hann stolið frá kínversku mafíunni.
Þegar ólánsgripirnir eru allir komnir af hafsbotni, hyggst Don Cortizone skilja félagana eftir á kóralrifinu en ræna skútu þeirra. Á síðustu stundu kemur hins vegar aðvífandi skip með ribböldum úr kínversku mafíunni og Von Schnabbel. Kínverjarnir binda þremenninga og slá upp veislu í hótelinu. Von Schnabbel situr hins vegar á svikráðum og sprengir það í loft upp. Svalur og Valur komast undan á skútu sinni en skilja Von Schnabbel og Don Cortizone eftir. Í næstu höfn verður Valur ástfanginn á ný og gleymir öllu þunglyndi.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Í bókinni er Svalur ekki klæddur í sinn hefðbundna lyftuvarðargalla. Hins vegar er Don Cortizone íklæddur slíkum búningi.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Bókin kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar á vegum Iðunnar árið 1992. Þetta var 29. bókin í íslensku ritröðinni og síðasta til þessa dags.