Fara í innihald

Sjálfvirka taugakerfið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Seftaugakerfið)

Sjálfvirka taugakerfið er annar hluti úttaugakerfisins en hinn er viljastýrða kerfið. Í andstæðu við viljastýrða kerfið sem dýrið hefur meðvitaða stjórn yfir virkar sjálfvirka kerfið sjálfkrafa. Það stýrir meltingu, líkamshita og svitamyndun, hjartsláttartíðni, blóðþrýstingi og öndun. Sjálfvirka kerfinu er síðan aftur skipt í driftaugakerfið (sympatíska taugakerfið) og seftaugakerfið (parasympatíska taugakerfið).

Taugungar sjálfvirka kerfisins[breyta | breyta frumkóða]

Bæði sympatíska og parasympatíska taugakerfið hafa frálæga (e. efferent) taugunga sem ganga frá mænu að líffæri sem skal ítauga - marklíffæri. Í báðum kerfum koma tveir frálægir taugungar við sögu, fyrirtaugaþráður og eftirtaugaþráður. Þar á milli er frumuhnoð.

Driftaugakerfið (sympatíska taugakerfið)[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirtaugaþráðurinn finnst aðeins í brjóstholshlutum og efstu tveimur eða þremur lenda-hlutum mænu. Þá er að finna í hliðlæga horni mænugrána. Þeir ganga út úr mænu að framan og sameinast mænutaug. Fyrirtaugaþráðurinn losar acetýlkólín á eftirtaugaþráðinn sem hefur frumubol sinn annaðhvort í hnoðu sympatísku keðjunnar (e. sympathetic chain) sem liggur meðfram hryggsúlu eða í fléttum (e.(sing.) plexus) í kringum ósæðina. Eftirtaugaþráðurinn gengur að marklíffærinu sem skal ítauga og losar noradrenalín á það.

Seftaugakerfið (parasympatíska taugakerfið)[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirtaugaþræðir frá parasympatíska kerfinu liggja í heilastofni og neðsta hluta mænu og koma að ítaugun í smáþörmum og ristli. Þá liggur fyrirtaugaþráðurinn úr mænu í hæð við hryggjarliði S2, S3 og S4 að frumuhnoði sem er staðsett við líffærið. Þar á eftirtaugaþráðurinn upptök sín og liggur frá hnoðinu að líffærinu. Báðir taugungarnir losa acetýlkólín öfugt við sympatíska kerfið.[1]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Neary, D. (2015). Neuroanatomy, an illustrated colour text. Elsevier. ISBN 9780702054051.


Taugakerfið

HeiliMænaMiðtaugakerfiðÚttaugakerfiðViljastýrða taugakerfiðSjálfvirka taugakerfið