Fara í innihald

Sútun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sútari)
Sútað skinn (leður)

Sútun er meðferð húða og skinna sem breytir eiginleikum þeirra og ver þau rotnun. Talað er um að súta skinn, en einnig að barka eða garfa skinn.

Fyrst eru skinnin útvötnuð til að skola salt úr húðinni, síðan er yfir- og fituhúð losuð, auk hárs ef ekki á að framleiða loðskinn. Það er oftast gert með kalklausn. Síðan er húðin afkölkuð og tyrð og böðuð í sútunarefnum. Þegar sútun er lokið eru skinnin borin feiti, stundum teygð og elt til að mýkja þau og oftast lituð. Hinar ýmsu sútunaraðferðir draga venjulega nafn sitt af þeim sútunarefnum sem notuð eru hverju sinni.

  • Við krómsútun eru notuð sérstök krómsambönd, oftast krómálún með sóda eða annarri basískri upplausn.
  • Við jurtasútun (rauðsútun) eru notuð ýmis efni úr jurtaríkinu, t.d. trjábörkur (barkarsútun), viður og laufblöð.
  • Við feitisútun er notuð ómettuð feit olía, t.d. lýsi og repjuolía.
  • Við hvítsútun (álúnsútun) er notuð upplausn úr kalíálúni eða álsúlfati, matarsalti og vatni. Gljásútun er afbrigði hvítsútunar þar sem auk kalíálúns og matarsalts er notað mjöl og eggjarauða.