Sólfar
Sólfar er höggmynd eftir Jón Gunnar Árnason myndhöggvara. Verkið er staðsett við Sæbraut í Reykjavík og var afhjúpað á afmæli Reykjavíkurborgar 18. ágúst árið 1990 og er nú á meðal helstu viðkomustaða erlendra ferðamanna sem heimsækja Reyjavík.
Árið 1986 efndu Íbúasamtök Vesturbæjar Reykjavíkur til samkeppni um útilistaverk í tilefni 200 ára afmælis Reykjavíkurborgar. Sólfar varð fyrir valinu og var frummyndin, lítill álskúlptúr gefinn Reykjavíkurborg. Það mun vera algengur misskilngur að Sólfarið sé víkingaskip en verkinu hefur verið lýst með eftirfarandi hætti: „Sólfarið er óður til sólarinnar og felur í sér fyrirheit um ónumið land, leit, framþróun og frelsi. Það er draumbátur sem felur í sér von og birtu.“[1]
Verkið er úr ryðfríu stáli og stendur á graníthellum með svokallaðri ráðhússteypu í stétt umhverfis hellurnar. Verkið var smíðað eftir máti af fríhendisteikningum Jóns Gunnars af verkinu í stækkaðri mynd. Aðstoð við frumvinnu og eftirfylgni veitti Kristinn E. Hrafnsson, myndlistarmaður. Sigurjón Yngvason, tæknifræðingur, sá meðal annars um gerð verklýsingar í samvinnu við Jón Gunnar og hafði eftirlit með smíði og uppsetningu verksins. Reynir Hjálmtýsson hafði yfirumsjón með smíði verksins í Vélsmiðjunni Orra í Mosfellssveit. Stærð verksins er 900 x 1800 x 700 cm.
Staðarval
[breyta | breyta frumkóða]Sitt sýnist hverjum um staðsetningu verksins við Sæbraut og setja menn helst fyrir sig að skipið snúi ekki stefninu í vestur, í sólsetursátt, samkvæmt hugmyndafræðinni á bak við verkið.
Staðarval Sólfarsins einskorðaðist í upphafi við vesturbæ Reykjavíkur af augljósum ástæðum. Samkvæmt fyrstu tillögum Jóns Gunnars var gert ráð fyrir að Sólfarið stæði á Landakotstúni og stefnið vísaði til miðborgarinnar en skutur að Landakotskirkju. Einnig kom til greina að skipið stæði í Reykjavíkurhöfn á þar til gerðum stöpli. Ánanaust var hins vegar sá staður sem hugnaðist Jóni Gunnari best en áætlanir um breytt skipulag Reykjavíkurborgar komu í veg fyrir það. Endanleg ákvörðun var tekin í samráði við Jón Gunnar um staðsetningu Sólfarsins við Sæbraut á litlu nesi, sem hann kallaði Jónsnes í gríni. Hann vissi vel að þótt Sólfarið yrði niðurnjörvað með stefnið í norður þá skipti það ekki máli.
Sólfarið var smíðað eftir fríhendisteikningum Jóns Gunnars og óreglulegt form þess, síbylgjandi línur og ljóðræn hreyfing, sem einkenna svo mörg listaverka hans, gera það að verkum að það er eins og skipið svífi í lausu lofti. Það teygir sig út í rýmið þannig að hafið, himinninn og hugur áhorfandans verður hluti af verkinu. Fyrir vikið er Sólfarið gætt þeim einstaka eiginleika að geta flutt hvern og einn þangað sem hugur hans leitar. Fæst verka Jóns Gunnars eru augljós enda sagði hann sjálfur að öll list ætti að hafa merkingu eða boðskap sem vísaði út fyrir hana sjálfa — áhorfandinn ber alltaf ábyrgð á að túlka verkin á sinn hátt og gerist þannig þátttakandi í mótun listaverksins. Verk Jóns Gunnars gera iðulega slíka kröfu til áhorfandans og veita honum þannig tækifæri til að uppgötva nýjan sannleika með þátttöku sinni.
Jón Gunnar var orðinn mjög veikur þegar hafist var handa við stækkun og smíði Sólfarsins og lést hann í apríl 1989. Sá sem ekki veit betur heldur að verkið hafi orðið til á þessu tímabili og ímyndar sér að það tengist hugleiðingum Jóns Gunnars um dauðann — að Sólfarið flytji sálir í ríki dauðans en það er alrangt. Hugsunin er falleg út af fyrir sig en hún er ekki í samræmi við hugmyndafræði Jóns Gunnars. Sólfarið er draumbátur, óður til sólarinnar og felur í sér von og birtu.
Ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Gunnar Árnason, Hugarorka og sólstafir. Listasafn Íslands, 1994.
- SÚM 1965-1972. Listasafn Reykjavíkur, 1989.
- Íslensk list: 16 íslenskir myndlistarmenn. Hildur, 1981.
- Íslensk listasaga, frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Listasafn Íslands og Forlagið, 2011.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Listasafnreykjavikur.is, „Listaverk vikunnar: Sólfar“ Geymt 22 janúar 2021 í Wayback Machine (skoðað 17. janúar 2021)