Sóknargjald
Sóknargjald er ákveðið hlutfall af tekjuskatti sem úthlutað er til þjóðkirkjusafnaða, löglega skráðum trúfélögum og lífsskoðunarfélögum á Íslandi samkvæmt fjölda skráðra meðlima þeirra[1][2].
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Sóknargjöld voru fyrst innleidd á Íslandi með lögum nr. 40/1909 en með sömu lögum var tíund afnumin ásamt með ýmsum öðrum gjöldum sem runnið höfðu til kirkjunnar. Sóknargjald var tvískipt og fólst annars vegar í prestsgjaldi sem nam 1 krónu og 50 aurum árlega og hins vegar kirkjugjaldi sem nam 75 aurum árlega. Gjöldin áttu allir yfir 15 ára aldri að greiða, óháð kyni eða stöðu og kom það í hlut sóknarnefnda að innheimta það. Undanþegnir frá framangreindum gjöldum voru þeir sem tilheyrðu öðrum kirkjufélögum utan þjóðkirkjunnar, sem höfðu fengið konunglega staðfestingu, enda næmu framlög hvers safnaðarmeðlims eldri en 15 ára að minnsta kosti 2 krónum og 25 aurum árlega. Ekki var í lögunum gert ráð fyrir að einstaklingar utan trúfélaga væru undanþegnir greiðslu sóknargjalda.[3]
Árið 1987 voru lög sett á Alþingi þar sem ríkið tók yfir innheimtu sóknargjalda á landsvísu. Í lögunum var fjársýslu ríkisins falið að reikna á hverju ári samkvæmt verðlagsþróun frá fyrra ári hvert sóknargjaldið skyldi vera hverju sinni. Fyrsta sóknargjaldið samkvæmt lögunum var því framreiknað sóknargjald það sem þjóðkirkjan hafði sjálf innheimt meðal safnaðarmeðlima sinna í hverri sókn fyrir sig árið á undan[1].
Ef breytingar eru gerðar á sóknargjaldinu setur ráðherra með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna að fengnum tillögum biskups og kirkjuráðs og að höfðu samráði við ráðuneyti er fer með tekjuöflun ríkisins[4].
Í upphafi var gert ráð fyrir að það skiptist á milli þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands, síðan þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga og loks til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga og tók það síðasta ákvæði gildi árið 2014[5].
Upphæðir
[breyta | breyta frumkóða]Sóknargjaldið var ákvarðað 400,24 kr. á hvern einstakling á mánuði árið 1987 þegar lögin tóku gildi, síðan miðað við að það hækkaði á hverju ári í samræmi við hækkun á meðaltekjuskattstofni. Árið 2021 er fjárhæð sóknargjalds 1.080 kr. á mánuði.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Lög nr. 40/1909 um sóknargjöld“. Sótt 6.nóvember 2014.
- ↑ „Lög nr. 91/1987 um sóknargjöld“. Sótt 6.nóvember 2014.
- ↑ „Lög nr. 40/1909 um sóknargjöld“. Sótt 6.nóvember 2014.
- ↑ „Lög nr. 40/1909 um sóknargjöld“. Sótt 6.nóvember 2014.
- ↑ „Lög nr. 40/1909 um sóknargjöld“. Sótt 6.nóvember 2014.