Fara í innihald

Rif (Snæfellsnesi)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rif undir Jökli)
Rif á Snæfellsnesi

Rif er þorp á utanverðu Snæfellsnesi, á milli Hellissands og Ólafsvíkur. Þar bjuggu 163 manns árið 2015. Þorpið er hluti af sveitarfélaginu Snæfellsbæ.

Í Rifi var til forna verslunarstaður, fyrstu sagnir um verslun og skipakomur þangað eru í Eyrbyggju. Þar var mikið útræði og margar verbúðir. Englendingar ráku umfangsmikla verslun þar á 15. öld. Árið 1467 urðu átök um viðskipti í Rifshöfn milli enskra kaupmanna og danska konungsvaldsins og var Björn Þorleifsson hirðstjóri umboðsmaður konungs veginn þar af Englendingum.

Rif var nálægt góðum fiskimiðum og þar var ein öruggasta lendingin í verstöðvum á vestanverðu Snæfellsnesi.

Rif var upphafsstaður saltfiskverkunar á Íslandi. Englendingar fluttu þangað salt og byggðu salthús á 15. öld. Fiskur var þá lagsaltaður í stór kör. Slík kör munu hafi verið til á Rifi þegar kaupstaðurinn lagðist þar af um 1700. Árið 1703 voru 1022 íbúar í Rifsumdæmi eða 177 fjölskyldur. 974 íbúanna lifðu á sjávarafla og Rif var þá og hafði verið um tveggja alda skeið stærsta sjávarþorp á Íslandi.

Höfnin á Rifi tók að spillast á tímum Einokunarverslunarinnar. Áin Hólmkela rann til sjávar um Rifsós. Áin hefur breytt um farveg og sandur berst nú í fyrri farveg og lokar Rifshöfn fyrir stærri skipum. Íbúar á Rifi gerðu kröfur um hafnarbætur og gekk um það dómur árið 1686. Málinu var vísað til landfógeta en hann aðhafðist ekkert og Hólmkela eyðilagði því bestu fiskihöfn Íslands. Fólk flutti frá Rifi og kaupmennska lagðist þar af og Ólafsvík varð löggild verslunarhöfn með konungsbréfi 26. mars 1687. Reynt var að breyta farvegi Hólmkelu og Laxár árið 1884-1887 þannig að þær rynnu í sinn upprunalega farveg. Þettu voru einar fyrstu hafnarbætur á Íslandi en þær gengu brösuglega því að nóttina eftir að verkið var klárað þá rauf Hólmkela varnargarðanna og byrjaði að renna í sinn gamla farveg. Grunur leikur á að um skemmdarverk hafi verið að ræða.

Rifshöfn til forna Geymt 2 júní 2008 í Wayback Machine