Afleidd löggjöf
Afleidd löggjöf er reglusetning sem annar aðili en löggjafarvaldið setur á grundvelli lagaheimildar. Algengast er að aðilinn sé innan framkvæmdarvaldsins en þó er mögulegt að aðrir aðilar, eins og innan dómsvaldsins sé fengin heimild til að ákveða nánari reglur um innri málefni sín og setja gjaldskrár. Einn tilgangur afleiddrar löggjafar er að veita öðrum aðila tiltekið afmarkað svigrúm til að skilgreina nánar inntak löggjafarinnar sökum sérfræðiþekkingar aðilans og þróunar innan málaflokksins með tíð og tíma.
Á Íslandi er algengast að þetta sé framkvæmt með setningu almennra stjórnvaldsfyrirmæla (eins og reglugerða) hvað varðar ríkið, en setningu samþykkta á vettvangi sveitarfélaganna. Að jafnaði er skylt að birta þau í B-deild Stjórnartíðinda hverju sinni. Reglugerð er afleidd löggjöf sem sett er af ráðherra fyrst og fremst í þeim tilgangi að skilgreina nánar framkvæmd laga.