Regína Þórðardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Regína Þórðardóttir (fædd í Reykjavík 26. apríl 1906, látin 17. október 1974) var íslensk leikkona. Hún hóf að leika á Akureyri um 1930, en þar bjó hún þá ásamt eiginmanni sínum, Bjarna Bjarnasyni lækni. Hugur hennar stóð snemma til náms í leiklist og gat hún látið þann draum rætast árið 1933 er þau hjónin fluttust til Kaupmannahafnar þar sem Bjarni stundaði um skeið framhaldsnám í sinni grein. Prófi frá skóla Konunglega leikhússins lauk Regína þó ekki fyrr en árið 1940.

Regína Þórðardóttir hóf að leika með Leikfélagi Reykjavíkur árið 1936 og starfaði með því þangað til Þjóðleikhúsið tók til starfa árið 1950. Í Þjóðleikhúsinu starfaði hún rúman áratug og var allan þann tíma ein helsta burðarleikkona hússins. Hún var á yngri árum sjálfkörin til að leika ungu og fögru stúlkurnar, en brátt kom í ljós að hún var efni í stórbrotna skapgerðarleikkonu. Hún lék frú Júlíu Strindbergs með Leikfélagi Akureyrar árið 1933 og meðal helstu hlutverka hennar hjá Leikfélagi Reykjavíkur voru Ragnheiður Brynjólfsdóttir í Skálholti Kambans, Geirþrúður Danadrottning í Hamlet Shakespeares og Steinunn í Galdra-Lofti Jóhanns Sigurjónssonar. Af hlutverkum hennar í Þjóðleikhúsinu má nefna frú Arnaeus í Íslandsklukku Laxness, Lindu Loman í Sölumaður deyr Arthurs Millers, Tyrkja-Guddu í samnefndu leikriti Jakobs Jónssonar og Evelyn Holt í Edward sonur minn eftir Noel Langley og Robert Morley.

Regína Þórðardóttir kvaddi Þjóðleikhúsið árið 1962 og næstu ár lék hún mest með Leikfélagi Reykjavíkur, auk þess sem hún lék einnig mikið í útvarp. Hún vakti mikla athygli fyrir túlkun sína á Matthildi von Zahnd í Eðlisfræðingum Dürrenmatts og Clöru Zachnassian í Sú gamla kemur í heimsókn eftir sama höfund. Þar naut dirfska hennar, hugkvæmni og hæfileiki til að lýsa sérkennilegum, jafnvel gróteskum persónum, sín til fulls. Hún var afar kröfuhörð við sjálfa sig, en yfirlætislaus og kunni því illa að vera mikið hampað. Hjá því varð þó ekki komist, þar sem engum duldist að hún var einn af fremstu listamönnum þjóðarinnar um sína daga.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]