Fara í innihald

Ráðherraráð Evrópusambandsins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ráðherraráðið)
Eitt af fundarherbergjum ráðherraráðsins
Varist að ruglast á Evrópska ráðinu, stofnun þjóðarleiðtoga aðildarríkja ESB og Evrópuráðinu, sem, eru alþjóðasamtök sem eru ekki innan ESB.

Ráð Evrópusambandsins, betur þekkt sem ráðherraráð Evrópusambandsins, er ein af höfuðstofnunum Evrópusambandsins (ESB). Það samanstendur af mörgum undirráðum sem sem fjalla hvert um sitt málefni og eru setin af viðkomandi ráðherrum allra aðildarríkjanna. Aðildarríki ESB eru 27 í dag. Til dæmis sitja allir 27 landbúnaðarráðherrarnir í landbúnaðarráðinu og allir 27 menningarmálaráðherrarnir í menningarmálaráðinu. Í dag starfa tíu mismunandi ráðherraráð.

Ráðherraráðið fer með mesta löggjafarvald innan sambandsins ásamt Evrópuþinginu og virkar líkt og ríkisráð í sumum löndum, til dæmis Þýskalandi. Atkvæðavægi innan ráðsins fer eftir íbúafjölda ríkjanna, minnst þrjú atkvæði en mest 29. Ráðherraráðið hefur einnig nokkurt framkvæmdavald en það er að mestu í höndum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Enginn forseti er í ráðherraráðinu heldur gengur forsæti ráðs Evrópusambandsins á milli aðildarríkja með sex mánaða millibili, það ríki sem hefur forsæti hverju sinni hefur dagskrárvald. Undantekningin frá þessu er á sviði utanríkismála þar sem nýtt embætti utanríkismálastjóra Evrópusambandsins hefur forsæti. Ritari Ráðs Evrópusambandsins er Frakkinn Thérèse Blanchet.

Ráðherraráðið getur átt frumkvæði að lagasetningu á ákveðnum málefnasviðum. Í þeim tilvikum eru lög sett með tvöföldum auknum meirihluta. Til þess að tillaga nái fram að ganga þarf samþykki 55% aðildarríkja sem telja til sín að minnsta kosti 65% íbúa Evrópusambandsins. Minnihluti getur stöðvað framgang þessara mála ef ríkin í honum telja til sín yfir 35% af íbúafjölda sambandsins.[1] Í flestum tilvikum deilir ráðherraráðið þó löggjafarvaldinu með Evrópuþinginu. Ráðherraráðið hefur lengi legið undir ámæli fyrir ógagnsæi og árið 1995 dæmdi Evrópudómstóllinn breska blaðinu Guardian í hag í máli gegn ráðherraráðinu fyrir að veita ekki nægar upplýsingar.

Forsæti í ráðinu

[breyta | breyta frumkóða]

Aðildarríkin skiptast á að fara með forsæti í ráðinu, sex mánuði í senn. Þá er talað um að ákveðið ríki hafi forsæti í ráðinu. Á komandi árum verður röðin eftirfarandi:

  • 2024 Belgía & Ungverjaland
  • 2025 Pólland & Danmörk
  • 2026 Kýpur & Írland
  • 2027 Litháen & Grikkland
  • 2028 Ítalía & Lettland
  • 2029 Lúxemborg & Holland
  • 2030 Slóvakía & Malta

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Nákvæmlega hverju breytir Lissabon-sáttmálinn um áhrif smáríkja innan ráðs ESB á næstu árum?“. Vísindavefurinn.