Posta
Posta (áður Postverk Føroya) er færeyskt póstflutningsfyrirtæki og er að öllu leyti í eigu færeyska ríkisins. Fyrirtækið skiptist í frímerkjadeild og póstafgreiðsludeild. Frímerkjadeildin sér um alla framleiðslu, útgáfu og sölu frímerkja.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Skjútsskipanin
[breyta | breyta frumkóða]Fyrir tíma áætlunarsiglinga var sérstakt flutningskerfi notað til þess að fara með fólk og skilaboð á milli eyjanna. Þetta var svokallað „skjúts“ sem mætti kalla skutl. Hver byggð átti að útnefna sérstakan mann eða „skjútsskaffara“ sem hafði það hlutverk að útvega menn til að ferja fólk, bréf eða pakka á milli eyja. Allir verkfærir menn á aldrinum 15-50 ára voru skyldugir til að annast slíka flutninga ef til þeirra var leitað og fengu sekt ef þeir neituðu.
Fyrstu lögin um þessar siglingar voru sett árið 1865 og lögþingið ákvarðaði farmgjaldið á fimm ára fresti. Gjaldflokkar farþegaflutninga voru þrír: embættismenn greiddu lægsta gjaldið, prestar greiddu ögn meira og almenningur greiddi hæsta gjaldið. Gjaldið var lágt og ferjumenn fengu lítið í sinn hlut en þetta var þó framför þar sem ekkert hafði verið greitt fyrir siglingarnar á árunum fyrir löggjöfina.
Fimm árum síðar, 1. mars 1870 var fyrsta pósthúsið stofnað í Þórshöfn. Annað pósthús eyjanna var stofnað 1. mars 1884 í Tvøroyri og þann 1. maí 1888 bættist það þriðja við í Klakksvík. Í öllum þremur pósthúsanna voru sýslumenn sem stjórnuðu þeim.
Farkostirnir sem notaðir voru við skjútsið voru árabátar og gilti þetta fyrirkomulag fram undir fyrri heimsstyrjöld en fjaraði þá út því póstflutningar voru hlutfallslega ódýrari og vélbátar og strandferðaskip voru komin til sögunnar. Þetta fyrirkomulag var því lagt niður. Árið 1927 keypti Samson Joensen vélbátinn Guttaberg. Samson var póstmaður í Klakksvík og silgdi þaðan til Kunoyarbygð og Kalsoynna. Sama árs hóf Ólaf á Stonum siglingar á vélbáti á milli Klakksvíkur, Árnafjarðar og byggðarfélaganna austan Múla.
Vélbátavæðing
[breyta | breyta frumkóða]Reglulegir farmflutningar á milli eyjanna hófust árið 1895. Þá var stofnað fyrirtækið A/S J. Mortensens eftf. á Tvøroyri sem hóf strandferðarsiglingar með skipunu Smirli og sigldi það um allar eyjarnar og annaðist jafnframt póstflutninga. Á næstu árum fjölgaði pósthúsum jafnt og þétt. Árið 1903 voru sjö pósthús reist og 1. desember 1905 flutti pósthúsið í Þórshöfn í nýbyggingu í miðbæ bæjarinns. Nýja pósthúsið í Þórshöfn var það fyrsta sem var sérbyggt sem pósthús, því öll pósthúsin sem höfðu verið stofnuð voru starfrækt í eldri húsum.
Strandferðafyrirtækið A/S J. Mortensens fékk þó samkeppni árið 1908 þegar að fyrirtækið A/S Thorsavn Mælkeforsyning og Margarinefabrik var stofnað 1. ágúst 1908. Skip þess sigldi á milli Þórshafnar og Hvalvíkur og til Sandeyjar. Fyrirtækið annaðist póstflutninga á milli Þórshafnar og nokkurra byggða í Færeyjum um 70 ára skeið.
Pósthúsum snarfjölgaði á næstu 20 árum og var póstafgreiðslustöðvum komið á fót í öllum byggðum landsins. Árið 1918 voru opnaðar 15 nýjar póstafgreiðslur. Mörgum þessara pósthúsa hefur nú verið lokað aftur og þess í stað annast póstafgreiðslumenn póstþjónustu í smærri byggðum. Er það hluti af hagræðingu í færeysku póstþjónustunni á síðustu árum.
Um og eftir báðar heimsstyrjaldirnar urðu vandræði með frímerki í Færeyjum. Skortur var á frímerkjum með réttu verðgildi og þurfti að nýta þau frímerki sem til voru með yfirstimplunum og öðrum ráðum. Þann 8. desember 1918 fékk póstmiðstöðin í Færeyjum bréf frá Kaupmannahöfn sem var póstlagt þann 16. nóvember 1918. Í bréfinu var boðuð hækkun á gildandi póstgjöldum. Innanlandsburðargjald hækkaði úr 5 aurum í 7 og burðargjald á póstkortum til Danmerkur sömuleiðis úr 4 aurum í 7 aura. Þessi gjaldskrárbreyting tók gildi 1. janúar 1919.
Vegna slæms sambands Færeyja við umheiminn var ómögulegt að fá nýju 7 aura frímerkin til Færeyja fyrir gildistöku nýju gjaldskrárinnar. Ekki var nóg til af eins, tveggja, þriggja og fjögurra aura frímerkjum til að mæta eftirspurninni. Póstmiðstöðin í Þórshöfn fékk því leyfi til að klippa 4 aura frímerkin í tvennt og nýta þau þannig sem 2 aura frímerki. Þessi 2 aura frímerki kláruðust svo og Póstmiðstöðin í Þórshöfn fékk þá leyfi til að yfirstimpla 5 aura frímerin svo þau nýttust sem 2 aura frímerki.
Aftur komu upp vandræði árið 1940. Vegna hernáms Þjóðverja í Danmörku var ekki unnt að fá frímerki þaðan. Þá var aftur gripið til þess að yfirstimpla frímerki og var það gert þar til unnt var að fá frímerki aftur frá Danmörku.
Yfirtaka ríkisins
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1970 var fyrirkomulagi póstmála breytt þannig að póstmiðstöð landsins var í Þórshöfn og pósthús voru í Klakksvík, Tvøroyri, Vági, Vestmanna og Saltangará. Aðrar póstafgreiðslustöðvar hétu „brevsamligssteder“ (bréfhirðingarstöðvar) og „postudvekslingssteder“ (póstdreifingarstöðvar).
Í lögþingskosningum í nóvember 1974 komust jafnaðarflokkurinn, Fólkaflokkurinn og þjóðveldisflokkurinn í meirihluta. Þeir ákváðu að Færeyingar skyldu sjálfir yfirtaka póstafgreiðslu á eyjunum. Árið 1975 voru samráðsfundir haldnir á milli dönsku ríkistjórnarinnar og landsstjórnar Færeyja og var niðurstaða þeirra að heimastjórnin yfirtók póstafgreiðslu þann 1. apríl 1976. Þessi nýja stofnun fékk nafnið Postverk Føroya og merki félagsins er hrútshorn.
Um sama leyti, eða 30. janúar 1975 byrjaði danski pósturinn, Post- og Telegrafvæsnet, að prenta færeysk frímerki. Færeyingar höfðu áður notast við dönsk frímerki. Póstafgreiðslan í Færeyjum nýtir sér þessi frímerki til póstsendinga og til sölu til frímerkjasafnara.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Postverk Føroya“ á færeysku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. apríl 2011.
- www.posta.fo