Póker

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Póker er fjárhættuspil spilað er með einum spilastokki af tveimur eða fleiri þátttakendum. Til eru ýmsar gerðir pókers með örlítið ólíkar reglum. Hver spilari byrjar spilið með ákveðin fjölda spilapeninga (chips á ensku), sem ekki má breyta á meðan á spilinu stendur og spilari notar til að leggja undir í potti, sem spilað er upp á. Spilari fær í hverri umferð ákveðinn fjölda spila og getur síðan eftir tegundum pókers ýmist dregið sér ákveðinn fjölda af spilum úr spilastokknum eða notað sér sameinginleg spil, sem hafa verið lögð upp á borðið, til að mynda sterkustu mögulega hendi fimm spila. Spilari notar hluta fjárins eða allt fé sitt í einu til að veðja á að hann sé með bestu hendi. Ef hann fær sjón hjá einum eða fleiri meðspilurum verða þeir spilarar að leggja spil sín upp, en sá sem sýnir hæstu hendi vinnur pottinn óskiptan. Þegar spilari hefur tapað öllum sínum spilapeningum er hann úr leik.

Póker er ein mest spilaða íþrótt á Netinu. Árið 2017 náðu tölvur yfirburðastöðu yfir menn í póker, líkt og í Go áður, og skák (og t.d. Checkers) þar áður.

Pókerhendurnar (þær sterkustu efst)[breyta | breyta frumkóða]

  1. Konungleg litaröð (Royal flush)
  2. Litaröð (Straight flush)
  3. Ferna (Four of a kind)
  4. Fullt hús (Full house)
  5. Litur (Flush)
  6. Röð (Straight)
  7. Þrenna (Three of a kind)
  8. Tvær tvennur (Two pair)
  9. Tvenna (One pair)
  10. Hátt einspil (High card)

Ef spilarar sýna eins hendi, vinnur sú sem hefur sterkustu spilin, þ.e. ásapar vinnu kóngapar, drottningarpar o.s.frv og litur sem inniheldur háspil vinnur lit, sem hefur lægra eða ekkert háspil. Ef spilarar sýna röð vinnur sá með röðina sem inniheldur hæsta spilið. Ás, getur verið lægsta spil í röð, þ.e. Á2345, eða það hæsta eins og í konunglegri röð, TGDKÁ (T = 10). Ás getur þó ekki verið inni í röðinni eins og t.d. DKÁ23. Ef spilarar sýna jafn sterka hendi skipta þeir pottinum jafnt á milli sín.

Ýmsar gerðir pókerleikja[breyta | breyta frumkóða]

Texas Hold 'em

Texas Hold 'em er ein vinsælasta tegund pókers. Hver spilari fær tvö spil á hendi, en gjafari gefur eitt spil til þess sem situr honum á vinstri hönd og svo koll af kolli þangað til allir eru komnir með sín tvö spil. Sá sem er vinstra megin við gjafara kallast Litli blindur, sá sem er svo vinstra megin við hann kallast Stóri blindur. Litli blindur borgar ákveðna peningaupphæð í byrjun leiks og Stóri blindur borgar tvöfalt hærri upphæð. Svo byrjar sá sem er vinstra megin við Stóra blind og ræður hvort hann vilji sjá hann, pakka, eða hækka. Svo gengur þetta koll af kolli. Eftir þetta kemur Floppið, eða 3 fyrstu spilin á borðið. Þá mega spilarar nota þessi 3 spil sem eru í borði með sínum tveim og reyna að mynda eins góða 5 spila hendi og mögulegt er. Svo segir Litli blindur. Maður getur tékkað, veðjað eða hækkað þann sem veðjaði ef einhver veðjaði. Svo kemur fjórða spilið, sem er kallað Turn og þá má veðja aftur. Að lokum kemur fimmta og seinasta spilið, kallað River, og þá má veðja í síðasta skipti. Svo eru sýnd spilin og sá sem er með sterkustu höndina tekur allan pottinn.

Maður á móti manni: Er það kallað þegar aðeins tveir spilarar eru í pottinum og þá breytast reglur dálítið. Í stað þess að sá sem er vinstra megin við gjafarann sé litli blindur þá er gjafarinn sjálfur litli blindur, og hinn er þá stóri blindur.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]