Fara í innihald

Orrustan við Maraþon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Orustan við Maraþon)
Herir Grikkja (bláir) umkringja heri Persa (rauðir).

Orrustan við Maraþon átti sér stað í september árið 490 f.Kr. og var háð milli Forn-Grikkja og Persa. Dareios I Persakóngur gerði innrás á meginland Grikklands og reyndi að leggja það undir Persaveldi. Meginheimildin fyrir orrustunni er gríski sagnaritarinn Heródótos.

Dareios sendi fyrst Mardoníos árið 492 f.Kr. landleiðina til Evrópu til að treysta völd Persa í Þrakíu og Makedóníu. Leiðangurinn bar að einhverju marki árangur en nær allur herinn fórst í stormi er hann sigldi um Aþosskagann og þeir sem lifðu af neyddust til að halda aftur til Litlu Asíu. Árið 490 f.Kr. voru Datis og Artafernes sendir sjóleiðina til þess að ná yfirráðum yfir eyjunum á Eyjahafi og refsa Eretríu og Aþenu fyrir stuðning sinn við jónísku borgirnar í jónísku uppreisninni. Setið var um Eretríu og borgin féll. Þá hélt flotinn að Maraþonflóa. Þar beið hann ósigur gegn mun fámennara liði hoplíta frá Aþenu og Plataju, undir stjórn Míltíadesar, Kallímakkosar og Arimnestosar.

Talið er að í liði Persa hafi verið 20-60 þúsund hermenn en fornar heimildir herma að þeir hafi verið 200-600 þúsund. Í liði Grikkja voru 10 þúsund Aþeningar og 1000 Platajumenn. Samkvæmt Heródótosi létust 6400 Persar auk þess sem Grikkir náðu 11 af herskipum þeirra. Í liði Grikkja féllu 192 Aþeningar og 11 Platajumenn.

Maraþonhlaup er nefnt eftir bænum Maraþon en sögur herma að boðberinn Feidippides hafi hlaupið 42 kílómetra frá borginni til Aþenu með skilaboð um sigur í bardaganum við Maraþon. Hann lá svo örendur eftir hlaupið.

  Þessi fornfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.