Ormur Þorleifsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Ormur Þorleifsson eða Ormur ríki á Knerri (d. 16. október 1609) var ríkur bóndi á Snæfellsnesi á 16. öld og er sagður hafa verið yfirgangssamur og harðlyndur ójafnaðarmaður. Þjóðsögur segja að fjöldamorðinginn Axlar-Björn hafi alist upp hjá honum.

Ormur var sonur Þorleifs Einarssonar sýslumanns á Hofsstöðum í Miklaholtshreppi og konu hans Kristínar, dóttur Torfa ríka Jónssonar í Klofa. Hann mun hafa heitið eftir föðurbróður sínum, Ormi Einarssyni bónda í Saurbæ á Kjalarnesi, sem veginn var í Viðey af mági sínum, Erlendi Þorvarðarsyni síðar lögmanni, árið 1518. Ormur var einbirni og hefur vafalaust fengið töluverðan arf eftir foreldra sína. Hann bjó lengi á Knerri í Breiðuvík og er sagður hafa átt þar allt land milli fjalls og fjöru. Hann hélt mörgum mönnum til sjóróðra undir Jökli og auðgaðist mjög, bæði að lausafé og jarðeignum, en mun hafa þótt harðdrægur í viðskiptum og illt þótti að vera leiguliði hans, samanber alkunnan kviðling:

Enginn er verri
en Ormur á Knerri.

Fátt er þó vitað með vissu um Orm en árið 1577 átti hann í deilum við sveitunga sinn, Alexíus Þorvarðsson, og lauk þeim svo að Alexíus hjó hægri hönd af Ormi um úlnlið en Jón sonur Alexíusar veitti Ormi sár á handlegg og barði hann með steini. Voru þeir feðgar dæmdir útlægir fyrir þetta.

Sagnir herma að Ormur hafi haft vinnumann af Mýrum, Pétur að nafni, og þegar hann kvæntist hafi Ormur reynst honum vel og látið hann hafa jörð til ábúðar. Hann tók svo yngsta son þeirra hjóna í fóstur og var það Björn, sem síðar var kenndur við Öxl. Hann ólst því samkvæmt þjóðsögum upp á Knerri og framdi þar sitt fyrsta morð. Sagt er að sonur Orms, Guðmundur, hafi verið mikill vinur Björns og haldið yfir honum hlífiskildi eftir að hann tók við búi af föður sínum gömlum. Ormur dó þó ekki fyrr en þrettán árum eftir að Björn var tekinn af lífi og hefur þá líklega verið háaldraður.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Illa brotna bein á huldu. Fálkinn, 4. tölublað 1961“.
  • „Sumardagar í Breiðuvík. Frjáls þjóð, 28. tölublað 1963“.