Fara í innihald

Nytjagreiðslureglan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nytjagreiðslureglan er sú regla að þeir sem nýta eitthvað úrræði eigi að greiða allan kostnað sem í úrræðinu felst. Reglan gengur út frá því að mesta skilvirkni í skiptingu gæða náist þegar neytendur greiða fullt verð fyrir úrræðið. Ef úrræðið er undirverðlagt leiðir það til ofnotkunar og ef það er yfirverðlagt leiðir það til vannýtingar. Í opinberri þjónustu felst andstæða nytjagreiðslureglunnar í hugmyndinni um greiðslugetu sem segir að þeir sem hafa meira milli handanna axli meira af kostnaðinum við veitingu þjónustunnar en þeir sem minna mega sín.

Nytjagreiðslureglan styður hugmyndina um láréttan jöfnuð sem segir að fólk með svipaðar tekjur og eignir eigi að fá jafna skattalega meðferð óháð því hverjar aðstæður þess eru að öðru leyti. Grunnhugmyndin er sú að þeir sem ekki nýta sér þjónustuna ættu ekki að þurfa að greiða fyrir hana með sköttum.

Nytjagreiðslureglan virkar vel þegar greiðandinn og neytandinn eru sami aðili, en það er ekki alltaf tilfellið. Munur á greiðanda og neytanda kemur til dæmis fram þar sem um er að ræða ytri áhrif. Ökumaðurinn sem kaupir eldsneyti greiðir í raun ekki fullt verð vegna þess að kostnaður fellur til vegna gróðurhúsalofttegunda sem losna í útblæstri bílsins og valda hnattrænni hlýnun. Í þessu tilviki verður því til samfélagslegur kostnaður sem lýsir sér ekki í verði eldsneytisins. Aukin opinber gjöld á eldsneyti eru því oft rökstudd með nytjagreiðslureglunni, þótt það byggist kannski á takmarkaðri vitneskju um það hver hinn samfélagslegi kostnaður sé nákvæmlega.

Í samhengi við auðlindastjórnun felst nytjagreiðslureglan í því sjónarmiði að þeir sem hagnýta náttúrulegar auðlindir sér til ávinnings skuli greiða allan kostnað sem til fellur við stjórn, viðhald og verndun auðlindanna. Nytjagreiðslureglan er þannig notuð sem rökstuðningur fyrir álagningu veiðigjalda og aðstöðugjalda.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.