Notandi:Ragnasv

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Möguleikar opins menntaefnis í íslensku menntakerfi[breyta | breyta frumkóða]

Í því nútímasamfélagi sem við búum í núna eiga sér stað breytingar og þróun á ýmsum sviðum og menntakerfið er frábrugðið því. Með sífellt aukinni notkun netsins og auðveldara aðgengi að upplýsingum þar innan hafa opnast möguleikar fyrir breytingar á starfi kennara og námi nemenda. Opið menntaefnið felur í sér hvers konar upplýsingar sem hægt að nýta í kennslu og er opið almenningi t.d. kennurum og nemendum. Um er að ræða viðbót við hefðbundin námsefni og með þessu skapast nýir möguleikar fyrir skólakerfið þar sem auðveldara aðgengi er að fjölbreyttara menntaefni á öllum menntastigum (Nói Kristinsson, 2012[1]). Víða í heiminum er notast við opin námsgögn innan skólakerfa og því má velta fyrir sér af hverju Ísland sé ekki virkari þátttakandi í því en raun ber vitni. Það á sér stað ákveðinn ótti og hræðsla við opið menntaefni hér á landi og birtist það til að mynda í því að kennarar mæla yfirleitt ekki með opnu menntaefni líkt og Wikipedia við nemendur sína til þekkingaröflunar þar sem síðan er sögð ekki nægilega traust sem heimild (Ósk Laufey Heimisdóttir, 2010[2]). Algengt er að halda að opið menntaefni sé það sama og lærdómur á netinu (e.online learning) en svo er ekki því opið menntaefni getur verið að finna á hvaða miðli sem er t.d. texti á pappír, myndband, hljóð eða margmiðlun á tölvutæku formi (Butcher, 2015[3]). Opið menntaefni miðar að því að skapa opinn vettvang fyrir þekkingu og lærdóm á hvers konar efni og stuðlar að margskonar tækifærum í notkun, þróun og dreifingu efnisins. Venjan er víða sú að mikið af námsefni sé læst á bakvið lykilorð og sé ekki því ekki aðgengilegt óviðkomandi en síðustu ár hefur útbreiðsla á opnu menntaefni aukist til muna og þannig hafa komið fram margskonar tilefni til nýrra tækifæra menntunar (Organisation for economic co-operation and development, 2007[4]).

By Vinihg - Own work, CC BY-SA 3.0

Verðugt er að velta fyrir sér möguleikum opins menntaefnis fyrir skólakerfið hér á landi. Margir leiða hugann að því að með þessu gætis skapast sparnaður fyrir menntastofnanir þar sem opið menntaefni myndi draga úr prentkostnaði þar sem kennsluefnið væri opið til dreifingar, notkunar og til hvers konar breytinga. Sú hugsun er í raun rétt en aðalmarkmiðið með opnu menntaefni snýr þó ekki að efnahagslegum hliðum heldur miklu frekar að því að skapa kennurum og nemendum aðgang að mun fjölbreyttari námsgögnum og þannig tækifæri á að auka þekkingu sína og við að leggja sitt af mörkum í menntaefninu með því að breyta, bæta og þróa það sjálf (Nói Kristinsson, 2012[1]).

By Corinne.sutter - Own work, CC BY-SA 3.0

Þessi þróun og möguleikar eru þó ekki gallalausir því helsta hættan við miðlun opins menntaefnis getur verið svokölluð misfærsla upplýsinga þar sem einstaklingur trúir því að upplýsingarnar sem miðlað er, séu réttar. Aðeins með vönduðum vinnubrögðum og þekkingu er hægt að fyrirbyggja þessa misfærslu sem því miður hefur leitt til neikvæðra viðbragða og ýtt undir fordóma líkt og með viðhorf margra kennara til Wikipedia. Huga þarf því sífellt að gæði upplýsinganna sem er að finna innan opins menntaefnis. Upplýsingarnar sem settar eru fram oft geta þó verið bundnar höfundarrétti sem þarf að skoða vel. Sá sem gerði efnið hefur fullan rétt til efnisins og því má einungis nota, dreifa og breyta því með leyfi. Höfundarréttur hefur verið eitt helsta vandamál opins menntaefnis því snúið getur verið að að finna hvaða leyfi sé á efninu og hver eigi höfundarréttinn (Nói Kristinsson, 2012[1]). Velta má fyrir sér hvort að þetta vandamál standi helst í vegi fyrir því að notkun opins menntaefnis sé ekki lengra á veg komin innan íslensks menntakerfis og hvaða leið sé fær til að snúa þeirri þróun og viðhorfi við.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 Nói Kristinsson. (2012). Opið menntaefni. Skýrsla um opið menntaefni á Íslandi. Námsgagnastofnun. Sótt 27. janúar 2017 af http://www.nams.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4f6f16ce-9814-47ed-91ae-5f7e62b97d66
  2. Ósk Laufey Heimisdóttir. (2010). Hvað eru opin námsgögn og eiga þau erindi í íslenskt skólaumhverfi? B.Ed. ritgerð. Sótt 27. janúar 2017 af http://skemman.is/stream/get/1946/6474/13911/1/Osk_Laufey_Heimisd%C3%B3ttir_1804693119.pdf.
  3. Butcher, N. (2015). A basic guide to open educational resources (OER). Commonwealth of Learning, Vancouver and UNESCO.
  4. Organisation for economic co-operation and development. (2007). Giving Knowledge for free. The emergence of open educational resources. Sótt 27. janúar 2017 af: http://www.oecd.org/dataoecd/35/7/38654317.pdf