Fara í innihald

Nikulás Bergþórsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Nikulás Bergsson)

Nikulás Bergþórsson (d. 1159), kallaður Nikulás Bergsson í sumum heimildum, var líklega fyrsti ábóti í Munkaþverárklaustri, víðförull fræðimaður og heimsborgari. Hann var sagður skáld gott og orti Jónsdrápu um Jóhannes guðspjallamann og Kristsdrápu.

Nikulás hafði meðal annars farið í pílagrímsferð til Jerúsalem og var vel kunnugur í Róm og víðar á Ítalíu. Hann skrifaði eða lét skrifa eftir sér leiðsögubók fyrir pílagríma, Leiðavísi og borgaskipan, sem kalla má fyrstu landafræðibókina á íslensku. Hann var sagður vitur og víðfrægur, minnugur og margfróður, ráðvís og réttorður. Hann var áhugamaður um stjörnufræði og lýsir því í bók sinni þegar hann var í Palestínu og lagðist þar niður á sléttum velli á bakka árinnar Jórdan, horfði upp í stjörnurnar og mældi þær síðan:

„Ut við Jórdan, ef maður liggur opinn á sléttum velli ok setr kné sitt ok hnefa á ofan, ok reisir þumalfingr af hnefanum upp, þá er leiðarstjarnan þar fyrir at sjá, jafnhá en eigi hærra.“

Nikulás sneri aftur heim til Íslands 1154. Klaustrið á Munkaþverá, sem var af Benediktsreglu, var stofnað árið 1155 fyrir tilstilli Björns Gilssonar Hólabiskups, Björns bróður hans, sem var prestur á Munkaþverá, og líklega einnig mágs þeirra, Jóns Sigmundssonar á Svínafelli. Í Stokkhólmsbók segir að fyrsti ábóti á Munkaþverá hafi heitið Höskuldur og verið skamma hríð en nú er yfirleitt talið að það sé misritun og Nikulás hafi verið fyrsti ábótinn.

Þann 15. júní 1158 var Nikulás ábóti við vígslu dómkirkjunnar í Skálholti með Klængi biskupi Þorsteinssyni og Birni biskupi Gilssyni og flutti vígsluprédikunina þar. Hann var ábóti á Munkaþverá í fjögur ár, til dauðadags 1159. Björn Gilsson prestur tók við af honum.

  • „Munkaþverár-klaustur. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Munkaþverárklaustur. Sunnudagsblaðið, 10. apríl 1966“.