Fara í innihald

Landssamband byssueigenda í Bandaríkjunum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá NRA)
Höfuðstöðvar NRA í Virginiu

Landssamband byssueigenda í Bandaríkjunum (enska: National Rifle Association of America, skammstafað NRA), er samband byssueigenda í Bandaríkjunum, sem stofnað var til að aðstoða fólk við að bæta skothæfni sína. Yfirlýst markmið þeirra var að stuðla að og hvetja til riffla notkunar í vísindalegum tilgangi. NRA var stofnað árið 1871 í New York fylki. Fyrsti forseti sambandsins var maður að nafni Ambrose Burnside en Burnside var einnig fyrrverandi hershöfðingi í bandaríska borgarastríðinu, fyrrverandi ríkisstjóri Rhode Island og öldungadeildarþingmaður.[1]

Starfsemi NRA er ýmiskonar. Sambandið gefur út nokkur tímarit: The American Hunter, The American Rifleman, Shooting Illustrated, Shooting Sport USA, America’s 1st Freedom og NRA Insight. Auk þess stendur Sambandið fyrir ýmiss konar fræðslu varðandi öryggi og meðhöndlun skotvopna.[2]

NRA hafði ekki mikil afskipti af pólitík fyrr en á 8. áratugnum þegar sambandið stofnaði Stofnun um lagasetningu (e.Institute for Legislative Action aka ILA). Stofnunin var sett á laggirnar til að verja annan viðauka stjórnarskrá Bandaríkjanna sem er önnur grein réttindaskrár Bandaríkjanna. Á seinustu áratugum hefur sambandið einbeitt sér að þessari stofnun auk þjálfunar og skotvopnakennslu. Samtökin eru stór þrýstihópur í bandarískum stjórnmálum, sem þrýstir á að lög og reglugerðir er varða byssueign komist í gegnum þingið. Hins vegar berjast þeir á móti öllum lögum og reglugerðum sem snúa að takmörkunum á byssueign og byssusölu, þar sem þeir telja að þar sé verið að brjóta á stjórnarskrávörðum réttindum bandarískra ríkisborgara.[3] NRA-sjóðurinn var svo stofnaður árið 1990 til að tryggja fjárhagslegan stuðning fyrir skotvopnastarfsemi, fræðslu og öryggi við meðhöndlun skoptvopna.[4]

Framkvæmdaráætlun Sameinuðu þjóðanna

[breyta | breyta frumkóða]

Þó svo að aðaláhersla ILA-samtakanna sé á sveitarfélög, ríki og alríkisstjórnina heima fyrir hafa þeir nýlega beint sjónum sínum að Sameinuðu þjóðunum. „The Program of Actions“ er framkvæmdaráætlun á vegum Sameinuðu þjóðanna. Markmið áætlunarinnar er að koma á fót alþjóðlegum stöðlum um vopnasölu. Með því vilja Sameinuðu þjóðirnar takmarka ólöglega vopnasölu þvert á landamæri. Meðfram þessum alþjóðlegu stöðlum hafa Sameinuðu þjóðirnar hvatt ríki til að setja einhverskonar reglur um vopnaburð, vopnasölu og vopnaeign heimafyrir. NRA lítur á slíka hvatningu erlendra samtaka sem brot á bandarískum ríkisborgurum og réttindum þeirra til vopnaburðar og vopnaeignar. Því hafa þeir eytt talsverðum fjármagni og þrýst á bandaríska þingið að samþykkja ekki neinar reglur sem miðar að þessari áætlun Sameinuðu þjóðanna.[5]

Annar viðaukinn (The Second Amendment)

[breyta | breyta frumkóða]

Eitt það mikilvægasta sem NRA byggir starfsemi sína og stefnumótun á er annar viðaukinn en það er eitt af stjórnarákvæðunum tíu sem tilheyra stjórnarskrá Bandaríkjanna og eru þau hluti af Réttindaskrá Bandaríkjanna. Ákvæðið hljóðar svo: „Þá er einnig viðurkennt mikilvægi þess að hafa borgaralegan her til að verja frelsi ríkisins og þar með rétt almennings til að bera vopn.“ Í þessu samhengi þýðir þjóðvarnarlið lið hermanna úr röðum óbreyttra borgara. Annar viðaukinn kom upprunalega frá Landsfeðrum Bandaríkjanna. Að þeirra mati voru vopnaðir ríkisborgarar besti herinn.

Það sem hefur alltaf verið umdeilt er hvernig ber að túlka orð ákvæðisins. Sumir vilja meina að þau eigi að vernda rétt einstaklinga til þess að bera vopn en aðrir vilja meina að einungis sé átt við herinn sjálfan.[6]

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur á undanförnum árum þurft að endurtúlka ákvæðið og styrkt það í leiðinni. Þess vegna er mjög auðvelt fyrir NRA og svipuð samtök að skýla sér bak við þennan stjórnarskrárbundna rétt allra bandarískra ríkisborgara.[7]

Byssumenning

[breyta | breyta frumkóða]

Það hefur sjaldan verið eins auðvelt að verða byssueigandi í Bandaríkjunum. Fjöldi ríkja sem leyfa almenna vopnaeign hefur aukist úr 18 í 40 frá árinu 1988. Þar hefur NRA aukið fylgi sitt og unnið marga pólitíska sigra.[8] Ekki má gleyma að það er ekki einungis vegna samtaka eins og NRA sem það að eiga byssu er mörgum Bandaríkjamönnum svo mikilvægt. Í raun virðist það samtvinnað bandarískri vitund og hefur verið það í gegnum sögu landsins.[heimild vantar] Þrátt fyrir það er byssueign enn mjög umdeild og umræðurnar virðast ná hápunkti eftir hverja fjöldaskotárás sem sér stað.[heimild vantar] Stærsta ástæðan fyrir tregðunni til að breyta byssumenningu landsins er annar viðaukinn.[9]

Aðkoma sambandsins að stjórnmálum

[breyta | breyta frumkóða]

NRA kemur víða að í bandarískum stjórnmálum. Sérstök nefnd á þeirra vegum, NRA-PVF (e. Political Victory Fund Geymt 19 september 2012 í Wayback Machine), raðar upp pólitískum frambjóðendum óháð flokka-afstöðu. Þessar raðanir byggjast á kosninga-skýrslum, opinberum ræðum og útkomu frambjóðendanna úr sérstökum NRA-PVF spurningakönnunum.

Árið 2008 kom nefndin að 271 kosningaherferð fyrir báðar deildir þingsins og sigruðu í 230 af þeim eða í 85% tilvika. Nefndin styrkti einnig þúsundir löggjafa-frambjóðenda þetta sama ár og náði um 84% sigri í þeim kosningum.

NRA veitir fjárframlög til bæði Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins. Hins vegar er stór munur á upphæðum framlaganna. NRA veitir Repúblikanaflokknum mun hærri fjárframlög en Demókrataflokknum. Á þessu ári (2012) hefur NRA-PVF veitt Repúblikanaflokknum um 88% af heildar fjárframlögum sínum.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „A brief history of the NRA“ í The National Rifle Association of America. Skoðað 19. september 2012
  2. „NRA publications and magazines“ Geymt 23 september 2017 í Wayback Machine. Skoðað 19. september 2012
  3. [1]
  4. „A brief history of the NRA“ í The National Rifle Association of America. Skoðað 19. september 2012.
  5. [2]
  6. „Second Amendment“ Geymt 18 nóvember 2012 í Wayback Machine á About.com, Skoðað 19. september 2012.
  7. „Second amendment“ í Cornell University Law School. Skoðað 19. september 2012.
  8. „After Tuscon shootings, NRA again shows it's strength“ í National public radio. Skoðað 19. september 2012.
  9. „A look inside America's gun culture“ í ABC news. Skoðað 19. september 2012.
  10. „About PVF“ Geymt 19 september 2012 í Wayback Machine í Political victory fund. Skoðað 19. september 2012.