Mjólkursýrugerlar
Útlit
(Endurbeint frá Mjólkursýrugerill)
Mjólkursýrugerlar eða mjólkursýrubakteríur er hópur Gram-jákvæðra gerla sem allir tilheyra ættbálkinum Lactobacillales og leggja stund á mjólkursýrugerjun. Þeir eru notaðir í matvælaiðnaði til geymsluþolsaukningar með sýringu, svo sem við gerð sýrðra mjólkurafurða á borð við súrmjólk og jógúrt, súrpæklaðs grænmetis á borð við súrkál og sýrðar gúrkur, gerjaðra kjötafurða á borð við spægipylsu, súrdeigs og fjölda annarra gerjaðra matvæla. Mjólkursýrugerlar finnast gjarnan í rotnandi plöntuleifum og nýtast einnig við súrheysgerð. Meðal helstu ættkvísla mjólkursýrugerla má nefna Lactobacillus, Leuconostoc, Pediococcus, Lactococcus og Streptococcus.