Millistétt
Millistétt eða miðstétt vísar til þeirra stétta sem eru í miðju þjóðfélagsstigans hvernig sem hann er skilgreindur hverju sinni. Millistéttin er oft skilgreind út frá starfi, tekjum, menntun og þjóðfélagsstöðu. Sögulega hefur þetta hugtak tengst innreið nútímans, kapítalisma og lýðræði. Stundum er millistéttin skilgreind sem sá fimmtungur almennings sem er í miðju tekjuskiptingarinnar, og stundum sem nánast allir nema þeir allra auðugustu og fátækustu.[1]
Árið 2009 hélt tímaritið The Economist því fram að yfir helmingur mannkyns tilheyrði nú millistéttinni, aðallega vegna hagvaxtar í nývaxtarlöndum. Tímaritið skilgreindi millistéttina sem fólk sem getur varið þriðjungi tekna sinna að vild, eftir að hafa greitt fyrir nauðsynjar eins og mat og húsaskjól.[2]
Friedrich Engels skilgreindi millistéttina á 19. öld sem borgarastétt, sem stæði á milli bænda og aðals. Samkvæmt því er millistéttin aðallega kaupmenn og iðnaðarmenn sem starfa í borgum og bæjum. Á tímum einveldisins í Frakklandi mynduðu borgarar og bændur saman þriðju stétt, andstætt aðlinum (annarri stétt) og klerkum (fyrstu stétt). Einkenni þriðju stéttar var að hún lifði af vinnu sinni. Þessar stéttir hafa því líka verið kallaðar „hinar vinnandi stéttir“ (verkamenn, bændur og iðnaðarmenn). Á 19. öld var farið að skipta borgarastéttinni í stórborgara (iðnjöfra og eignafólk) og smáborgara (einyrkja og eigendur smáfyrirtækja). Hugtakið millistétt var í auknum mæli notað yfir þau síðarnefndu. Í dag er hugtakið gjarnan notað yfir faglært starfsfólk, iðnaðarmenn, launafólk með háskólamenntun og starfsfólk fjármálafyrirtækja. Hugtakið hefur líka verið tengt við eignastöðu: fólk sem á fasteignir og sparnað, og nýtur starfsöryggis. Á 20. öld var tekið að greina á milli efri millistéttar (fólk sem gengið hefur í einkaskóla og er með verðmæta háskólamenntun; læknar, lögfræðingar, millistjórnendur, ráðgjafar) og neðri millistéttar (kennarar, iðnaðarmenn, faglært verkafólk).
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „What is middle class, anyway?“. Afrit af uppruna á 6. júlí 2020. Sótt 3. ágúst 2020.
- ↑ Parker, John (12. febrúar 2009). „Special report: Burgeoning bourgeoisie“. The Economist. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. febrúar 2009. Sótt 4. september 2023.