Metropolis (kvikmynd frá 1927)
Metropolis er vísindaskáldsögumynd frá 1927 eftir þýska leikstjórann Fritz Lang byggð á skáldsögu eftir eiginkonu hans, Theu von Harbou, frá 1925. Myndin er framtíðardystópía. Hún gerist í fútúrískri stórborg sem er knúin áfram af risastórum vélum sem verkamenn vinna við. Aðalpersónan, Freder, sonur borgarstjórans, kemst að því hvað aðstæður verkafólksins eru slæmar og reynir að miðla málum milli ráðamanna og verkamanna með aðstoð Maríu. Hinn illi uppfinningamaður Rotwang býr þá til vélmenni sem líkist Maríu og lætur það espa verkamennina upp í að eyðileggja vélarnar. Í lokaatriði myndarinnar berst Freder við Rotwang efst á skýjakljúfi og Rotwang hrapar til bana. Aðalleikarar myndarinnar voru Gustav Fröhlich, Alfred Abel, Rudolf Klein-Rogge og Brigitte Helm. Myndin fékk blendin viðbrögð á sínum tíma. Hún þótti sjónrænt falleg og kröftug, en skilaboðin um að samstarf stéttanna væri affarsælast voru gagnrýnd fyrir að vera barnaleg.