Fara í innihald

Marcus Junius Brutus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Markús Júníus Brútus)
Brjóstmynd af Brutusi

Marcus Junius Brutus (85 f.Kr23. október 42 f.Kr.) var rómverskur stjórnmálamaður, á síðustu árum rómverska lýðveldisins, og einn af morðingjum Júlíusar Caesars.

Brutus var sonur Marcusar Juniusar Brutusar eldri og Serviliu Caepionis. Brutus eldri var drepinn af Pompeiusi árið 78 f.Kr. og Servilia varð síðar hjákona Caesars. Brutus hlaut menntun hjá móðurbróður sínum, Cato yngri, og bjó síðar með honum í nokkur ár á Kýpur, þar sem hann auðgaðist á lánastarfsemi. Þegar borgarastríð braust út á milli Pompeiusar og Caesars tók Brutus stöðu með íhaldssömum öldungaráðsmönnum á borð við Cato og Cicero sem studdu Pompeius.

Brutus tók þátt í orrustunni við Farsalos, þar sem Pompeius og Caesar mættust. Brutus barðist fyrir Pompeius, sem beið lægri hlut, en Caesar fyrirskipaði um að Brutus skyldi ekki drepinn heldur handtekinn ef hann gæfi sig viljandi fram. Brutus gaf sig fram og ákvað Caesar í kjölfarið að fyrirgefa honum andstöðuna við sig og veitti honum ýmis mikilvæg embætti. Þegar í ljós kom að Caesar myndi ekki endurreisa lýðveldið í Rómaveldi snerist Brutus aftur gegn honum og var einn af leiðtogunum í samsærinu um að ráða Caesar af dögum, ásamt vini sínum Cassiusi.

Fljótlega eftir morðið á Caesari höfðu Marcus Antonius, einn helsti stuðningsmaður Caesars, og Octavianus, erfingi Caesars, myndað bandalag gegn Brutusi og Cassiusi. Brutus og Cassius flúðu frá Rómaborg og árið 42 f.Kr. mættust fylkingarnar tvær í orrustunni við Filippí í Macedoniu, þar sem Brutus og Cassius biðu ósigur og frömdu í kjölfarið báðir sjálfsmorð.