Fara í innihald

Marinkjarni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Marinkjarni
Marinkjarni

Marinkjarni (fræðiheiti Alaria esculenta) er brúnþörungur sem vex neðst í fjörum þar sem brims gætir. Hann er algengur á 5 m dýpi en hefur fundist allt niður í 20 m dýpi. Marinkjarni er brúnn á litinn. Stilkur marinkjarna er fremur stuttur en blaðið sem vex upp af stilkinum er 2 til 3 m langt með greinilegri miðtaug.

Marinkjarni er notaður í fóður og mat, til fjörubeitar og sem áburður og sem efni í hár- og húðvörur. Marinkjarni hefur verið mikið nýttur á Íslandi. Úr honum voru bökuð kjarnabrauð. Marinkjarni er bragðgóður og næringarríkur, hann er náskyldur þaranum Undaria pinnatifida sem á japönsku heitir Wakame. Marinkjarni hefur því verið kallaður á ensku "Atlantic Wakame". Marinkjarni er næringarríkastur á vorin og í byrjun sumars. Marinkjarna má borða eins og snakk og bragði svipar til harðfisks.

Marinkjarni er talinn henta í ræktun en frá fornu fari hefur honum verið safnað í fjörum. Aðeins er hægt að nálgast hann á stórstraumsfjöru. Marinkjarni er þurrkaður á ýmsan hátt svo sem með blæstri eða sólþurrkaður á snúrum. Hægt er að bleyta aftur upp þurrkaðan marinkjarna. Marinkjarna má frysta og hann geymist um 10 daga í ísskáp.