Margrét af Búrgund
Margrét af Búrgund (1290 – 14. ágúst 1315) var fyrri kona Loðvíks 10. Frakklandskonungs. Hún var elsta dóttir Róberts 2. hertoga af Búrgund og konu hans Agnesar, dóttur Loðvíks 9. Frakklandskonungs.
Margrét giftist Loðvík prinsi frænda sínum árið 1305. Snemma árs 1314 var hún handtekin ásamt Blönku af Búrgund, frænku sinni og mágkonu, sem gift var Karli prinsi, bróður Loðvíks (síðar Karl 4.). Þær voru sakaðar um framhjáhald og var eitt helsta vitnið gegn þeim Ísabella mágkona þeirra, kona Játvarðs 2. Englandskonungs.
Jóhanna systir Blönku, sem gift var þriðja bróðurnum, Filippusi (síðar Filippus 5.), var sökuð um að hafa hylmt yfir með þeim og jafnvel hafa tekið þátt í ástaleikjum í Tour de Nesle-málinu, eins og það var kallað, en hún var þó hreinsuð af því.
Margréti og Blönku var varpað í neðanjarðardýflissu í kastalanum Château-Gaillard og þar lést Margrét rúmu ári síðar. Loðvík hafði fengið hjónaband þeirra dæmt ógilt en þó er sagt er að hann hafi látið kyrkja hana, fimm dögum áður en hann giftist seinni konu sinni. Hann var krýndur konungur fáum dögum síðar en hafði tekið við konungsembætti þegar faðir hans dó ári fyrr og Margrét telst því hafa verið drottning Frakklands þótt hún gengdi aldrei því hlutverki í raun.
Margrét og Loðvík áttu eina dóttur, Jóhönnu (1311-1349), sem síðar varð drottning Navarra. Eftir að upp komst um framhjáhald móður hennar var þó vafi talinn leika á faðerninu.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Margaret of Burgundy, Queen of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. júní 2010.