Fara í innihald

Margrét Sambiria

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Margrét Sambiria.

Margrét Sambiria (d. í desember 1282), einnig kölluð Margrét hestasprengir (danska: Margrete Sprænghest) og Svarta-Gréta var furstadóttir frá Pommern og drottning Danmerkur frá 1252-1259.

Margrét var dóttir Sambors fursta af Pommern og Mechtild af Mecklenburg, konu hans. Hún giftist Kristófer, yngsta syni Valdimars sigursæla og Berengaríu af Portúgal, árið 1248. Árið 1252 var Abel Danakonungur, bróðir Kristófers, drepinn og Kristófer tókst að fá sig kjörinn konung þótt Abel ætti syni á lífi, Þau Kristófer og Margrét voru því krýnd konungur og drottning Danmerkur en þetta var upphafið á langri togstreitu milli afkomenda þeirra og Abelsættarinnar.

Kristófer dó 29. maí 1259 og tíu ára sonur þeirra, Eiríkur, varð konungur. Margrét var forráðamaður hans til 1264 en átti í stöðugum deilum bæði við Jakob Erlandsen erkibiskup, Eirík Abelsson hertoga af Slésvík og holsteinsku greifana. Biskupinn studdi kröfu Abelsættarinnar til ríkiserfða og hótaði að bannsyngja alla biskupa sem tekið höfðu þátt í að krýna hinn unga konung. Hann varð þó að láta í minni pokann og flúði land. Þá taldi Margrét sig nægilega sterka til að takast á við Eirík Abelsson í Slésvík en þá komu holsteinsku greifarnir honum til hjálpar. Margrét og Eiríkur biðu ósigur í orrustunni á Lóheiði sunnan Danavirkis 1261 og voru tekin til fanga.

Margrét var höfð í haldi í Hamborg en slapp þó með hjálp Alberts hertoga af Brúnsvík og tókst að ná syni sínum til sín og koma honum aftur í hásætið. Talið er að hún hafi haft mikil völd, líka eftir að sonur hennar varð fullveðja. Hún er talin hafa verið hæfur og upplýstur stjórnandi, dugmikil og viljasterk og er talið að auknefnið „sprænghest“ vísi til þess þótt einnig sé til sú þjóðsaga að hún hafi sprengt hest þegar hún reyndi að komast undan óvinum á flótta.

Auk Eiríks komust tvær dætur þeirra Kristófers upp. Erfðadeilan við Abelsættina varð til þess að árið 1263, áður en Eiríkur giftist og átti börn, skrifaði Margrét Úrban IV páfa bréf og bað hann að heimila að konur mættu erfa dönsku krúnuna. Með því vildi hún reyna að tryggja að dætur hennar gætu erft ríkið ef Eiríkur dæi. Páfi hreyfði engum mótmælum en ekki reyndi á þetta því Eiríkur eignaðist síðar nokkra syni.

Margrét dó í desember 1282 og er grafin í klausturkirkjunni í Bad Doberan í Mecklenburg.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]