Fara í innihald

Manresa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dómkirkjan í Manresa.

Manresa (katalónskur framburður: [mənrɛzə]) er borg og höfuðstaður Bages-sýslu, sem er í landfræðilegri miðju Katalóníu á Spáni. Áin Cardener rennur í gegnum bæinn. Íbúar árið 2017 voru um 75.000.

Manresa er iðnaðarbær og þar er stundaður textíliðnaður, málmiðnaður og gleriðnaður. Heilagur Ignatius Loyola dvaldi í Manresa við bænagjörð árið 1522 eftir pílagrímsferð sína til Montserrat en eftir það hefur bærinn sjálfur orðið áfangastaður pílagrímsferða.

Talið er að nafn sýslunnar, Bages, sé dregið af nafni Bakkusar, enda er mikil vínframleiðsla í héraðinu fyrr á tíð. Vínviður var ræktaður á stöllum og má víða sjá slíka stalla upp eftir hlíðum héraðsins. Vínlús (phylloxera) hefur orðið til þess að verulega hefur dregið úr vínframleiðslu en hún er þó enn mikilvæg atvinnugrein.

Merkasta byggingin í Manresa er dómkirkjan Santa Maria de la Seu, sem er frá fjórtándu öld. Þar er einnig kirkjan Sant Ignasi frá 17. öld, en undir henni er hellirinn þar sem sagt er að heilagur Ignatius hafi dvalið við bænir og hugleiðslu.