Lucius Aemilius Paullus Macedonicus
Lucius Aemilius Paullus Macedonicus (229 f.Kr. – 160 f.Kr.) var rómverskur herforingi og stjórnmálamaður. Faðir hans var was Lucius Aemilius Paullus, ræðismaðurinn sem beið ósigur og lét lífið í orrustunni við Cannae. Lucius Aemilius var höfuð Paullusar-greinar aemilísku ættarinnar, fornrar yfirstéttarættar. Hún var gífurlega valdamikil, ekki síst vegna ættarauðsins og bandalags ættarinnar við Scipio-grein cornelísku ættarinnar.
Paullus var kosinn edíll árið 193 f.Kr. og praetor árið 191 f.Kr. Hann var fyrst kjörinn ræðismaður árið 182 f.Kr., ásamt Gnaeusi Baebiusi Tamphilusi.
Þriðja makedónska stríðið braust út árið 171 f.Kr., þegar Perseifur Makedóníukóngur sigraði rómverskan her undir stjórn ræðismannsins Publiusar Liciniusar Crassusar í orrustunni við Callicinus. Paullus var kosinn ræðisamður á ný árið 168 f.Kr. (ásamt Gaiusi Liciniusi Crassusi). Öldungaráð Rómar fól honum umsjón með stríðsrekstrinum í Makedóníu. Skömmu síðar, 22. júní sama ár, vann hann yfirburðarsigur í orrustunni við Pydna. Perseifur Makedóníukóngur var tekinn höndum og stríðinu lauk.
Paullus fyrirskipaði aftöku 500 Makedóníumanna vegna mótspyrnu þeirra gegn Rómverjum, öðrum víti til varnaðar. Hann sendi mikinn fjölda fólks í útlegð og gerði upptækar eigur þeirra í nafni Rómar en hélt of miklu eftir fyrir sjálfan sig samkvæmt Plútarkosi. Hersveitir hans voru óánægðar með sinn skerf af herfanginu og til þess að halda þeim ánægðum ákvað Paullus að kom við í Epírus á leiðinni heim til Rómar. Enda þótt Epírus lyti þá þegar rómverskum yfrráðum ákvað Paulus samt að láta hersveitir sínar fara ránshendi um 70 þorp í landinu. Um 150.000 voru hneppt í þrældóm og landið var skilið eftir í sárri fátækt.
Heimkoma Paullusar þótti afar glæsileg. Hann hélt gæsta sigurgöngu inn í borgina og skartaði sjálfum konungi Makedóníu. Öldungaráðið viðurkenndi afrek Paullusar með því að veita honum viðurnefnið Macedonicus. Meðal herfangsins sem Paullus færði heim til Rómar var mikið safn grískra bóka en frá miðri 2. öld f.Kr. jukust mjög áhrif grískrar menningar á rómverska menningu, meðal annars vegna aukinna kynna Rómverja af grískum bókmenntum og fræðum.
Paullus var kosinn censor árið 164 f.Kr. en lést á kjörtímabili sínu árið 160 f.Kr.
Gæfa Paullusar-greinar aemilísku ættarinnar fór sígandi eftir andlát Paullusar Macedonicusar. Paulus hafði verið kvæntur Papiriu Masonis en skildi við hana. Með henni átti hann fjögur börn, tvo syni og tvær dætur. Önnur dætra hans giftist syni Marcusar Porciusar Catos en hin giftist Aeliusi Tubero, auðugum manni af almúgaættum. Paullus Macedonicus kvæntist öðru sinni og eignaðist tvo syni. Hann hafði ekki efni á að styðja fjóra drengi á framabraut og kom því eldri drengjunum tveimur í fóstur. Quintus Fabius Maximus tók annan þeirra að sér, sem síðan nefndist Quintus Fabius Maximus Aemilianus. Publius Cornelius Scipio, sonur Scipios Africanusar, tók að sér hinn drenginn sem síðan nefndist Publius Cornelius Scipio Aemilianus. Paullus treysti á að yngri synir hans tveir myndu halda nafni hans áfram en þeir létust báðir ungir að árum og með stuttu millibili.