Fara í innihald

Hundaæði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Froðukennt slef þessa hundar er það helsta sem gefur til kynna að hann sé með hundaæði.

Hundaæði er smitandi veirusjúkdómur. Veiran finnst í taugakerfi og munnvatni sjúkra dýra, hunda, úlfa og stundum refa og katta og annarra dýra. Menn geta fengið veikina ef þeir eru bitnir af sýktu dýri og er meðgöngutíminn 15 til 60 dagar. Hundaæði lýsir sér í fyrstu með depurð og hræðslu, hitahækkun eftir nokkra daga, þorsta, kyngingarörðugleikum vegna krampa í kokvöðvum og breiðast kramparnir síðan út um líkamann. Auknum sótthita fylgja lamanir uns sjúklingurinn deyr.[1]

Batahorfur voru áður litlar, en góður árangur hefur náðst ef hægt er að grípa sem fyrst inn með bólusetningu með veikluðum veirum unnum úr taugavef sjúkra dýra. Eftir að einkenni hundaæðis koma fram er svo gott sem fullvíst að viðkomandi muni deyja. Aðeins hafa 14 manns lifað af eftir að einkennin komu fram.[2]

Tæp 18.000 manns látast úr hundaæði árlega, langflestir í Asíu og Afríku.[3] Smitið kemur oftast úr hundum, en í Ameríku kemur smitið oftast úr leðurblökum.

Hundaæði hefur aldrei borist til Íslands svo staðfest sé. Þó er líklegast að pest sem barst til Norðfjarðar 1765 og sýkti eina konu og mörg húsdýr hafi verið hundaæði. Er þessari pest lýst í annál Halldórs Gíslasonar prests að Desjamýri og ýmsum sendibréfum sem varðveist hafa. Hundaæði er algengt á Grænlandi í hundum og refum en þeir komast sjaldan til Íslands. Ennfremur smita fuglar lítið eða ekkert þótt þeir grípi pestina.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. "Rabies Fact Sheet N°99". World Health Organization. Júlí 2013.
  2. Manoj, S.; Mukherjee, A.; Johri, S.; Kumar, K. V. S. Hari (2016). "Recovery from rabies, a universally fatal disease". Military Medical Research. 3 (1): 21.
  3. GBD 2015 Mortality and Causes of Death, Collaborators. (8. október 2016). "Global, regional, and national life expectancy, all-cause mortality, and cause-specific mortality for 249 causes of death, 1980–2015: a systematic analysis for the Global Burden of Disease Study 2015". Lancet. 388 (10053): 1459–1544. doi:10.1016/s0140-6736(16)31012-1.
  4. https://timarit.is/page/5568715?iabr=on#page/n33/mode/2up/search/hunda%C3%A6%C3%B0i
  Þessi heilsugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.