Fara í innihald

Ljósmæðrafélag Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ljósmæðrafélag Íslands er stéttarfélag ljósmæðra og ljósmæðranema.

Félagið var stofnað 2. maí 1919 og stóðu 20 ljósmæður að stofnun félagsins. Félaginu var ætlað að annast réttindamál og til að styðja ljósmæður í að viðhalda og auka þekkingu sína í ljósmóðurfræðum. Á upphafsárum félagsins og lengi framan af, voru ljósmæður afar dreifðar um landið og áttu erfitt með að komast frá til að afla sér nýrrar þekkingar. Því var eitt fyrsta verkefni félagsins að hefja útgáfu á Ljósmæðrablaðinu og miðla þannig þekkingu til ljósmæðra og kynna réttindamál þeirra. Við stofnun félagsins var stjórnin þannig skipuð: Þuríður Bárðardóttir, formaður, Þórdís Jónsdóttir Carlquist, ritari, og Þórunn Á. Björnsdóttir, gjaldkeri. Allar þessar ljósmæður voru embættisljósmæður í Reykjavík.[1]

Þó að samtök ljósmæðra hafi fyrst verið stofnuð árið 1919 er saga stéttarinnar þó mun lengri en ljósmæður eru fyrsta stétt kvenna í opinberu starfi hér á landi. Fyrstu íslensku ljósmæðurnar útskrifuðust á Bessastöðum haustið 1761 að loknu embættisprófi. Árið 1912 var Yfirsetukvennaskóli Ísland stofnaður og fór nám til ljósmóðurstarfa fram í skólanum. Árið 1932 var nafni skólans breytt í Ljósmæðraskóla Íslands. Skólinn starfaði til ársins 1994 en árið 1996 færðist nám í ljósmóðurfræðum yfir á háskólastig og útskrifuðust fyrstu ljósmæðurnar með próf frá Háskóla Íslands árið 1998.[2]

Formaður félagsins er Áslaug Valsdóttir.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Eva S. Einarsdóttir, „Ljóshnoðri við naflastreng“ Morgunblaðið, 7. maí 1994 https://www.mbl.is/greinasafn/grein/136570/ (skoðað 30. apríl 2019)
  2. Ljósmæðrafélag Íslands, Saga námsins. https://www.ljosmaedrafelag.is/ljosmodir/ljosmaedranamid/saganams (skoðað 30. apríl 2019)